144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð að gera þungar athugasemdir við túlkun hæstv. forseta og orð hans um þessa atburðarás. Þetta mál er ekki bara háð venjulegri þinglegri meðferð og er ekki einfaldlega undirselt meirihlutavaldi í nefndum. Um ferli svona máls gilda sérstök lög, lög um rammaáætlun. Það eru lög um það hvernig á að breyta virkjunarkostum og færa þá á milli flokka, sérstök lög um hvernig á að gera það. Og í þeim lögum segir að ráðherra eigi að gera tillögur um nýja virkjunarkosti á grundvelli tillagna frá verkefnisstjórninni en ekki formaður nefndarinnar, þannig að þetta er lögbrot. Það er ráðherra sem á að gera þessa tillögu og hann á að setja hana í umsagnarferli og að því loknu á hún að koma inn í þingið. (Forseti hringir.) Svo er það annað lögbrot að þarna er virkjunarkostur sem meiri hluti nefndarinnar (Forseti hringir.) ætlar að leggja til að fari í nýtingarflokk sem verkefnisstjórnin hefur ekki lokið umfjöllun um. (Forseti hringir.)Þannig að hér er um lögbrot að ræða og hvað gerir yfirstjórn þingsins þegar (Forseti hringir.) nefndarformaður og meiri hluti nefndar brýtur lög?