145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það lítur út fyrir að ríkisstjórnin muni standa við fyrirheit sín um að koma ekki til móts við aldraða og öryrkja. Það er bara þannig, því miður. Það verður að segjast að það olli mér miklum vonbrigðum þegar ég hlustaði á einn valdamesta mann landsins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson, reyna að greina í sundur þá sem búa við líkamlega örorku og andlega örorku.

Gríðarlegir sigrar hafa áunnist í að breyta viðhorfum og uppfræða almenning um geðræna sjúkdóma, andlega króníska sjúkdóma. Og það að gefa í skyn að það sé hægt að læknast af því og að þeir sem eru á örorkubótum út af andlegum sjúkdómum séu það ómaklega, þeir séu ómaklega skráðir öryrkjar, er fullkomlega forkastanlegt. Ég ætlaði varla að trúa því að ráðherra léti slíkt út úr sér og ég vona að hann komi hér í þingsal og útskýri orð sín því að það var ekki hægt að skilja þetta á annan hátt.

Ég vil síðan geta þess að viðhorfin í þingsal gagnvart þeim sem hafa búið við langtímaatvinnuleysi, meðal annars frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, eru þau að þeir sem hafa búið við það og þurft að flytjast yfir á sveitarfélögin út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar — ef þú er búinn að vera atvinnulaus lengur en í 2½ ár — að það fólk geti bara fengið sér vinnu. Þetta eru viðhorfin. Þetta sagði Jón Gunnarsson á síðasta kjörtímabili, þegar ég sat við hliðina á honum, og var ein ástæða þess að mér misbauð fullkomlega.


Efnisorð er vísa í ræðuna