149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

listaverk í eigu Seðlabankans.

[14:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Lífið er saltfiskur, sagði skáldið svo eftirminnilega. En lífið er ekki bara saltfiskur fyrir okkur. Við viljum ekki búa í verstöð, við viljum njóta listar og menningar. Ákvörðun Seðlabanka Íslands um að forfæra tiltekin listaverk í eigu bankans hefur vakið mikla athygli og umræður. Sú ákvörðun hefur verið harðlega fordæmd af ýmsum, þar á meðal af Bandalagi íslenskra listamanna sem lýsir furðu sinni á umræddri ákvörðun Seðlabankans og talar um þá undarlegu tímaskekkju að ritskoða list á þennan hátt.

Mér þykir hlýða að fá fram viðbrögð æðsta yfirmanns bankans og spyr þess vegna hæstv. forsætisráðherra: Hvert er viðhorf hæstv. ráðherra til umræddrar ákvörðunar Seðlabankans sem svo harðlega hefur verið fordæmd, m.a. af Bandalagi íslenskra listamanna eins og ég gat um?

Í annan stað: Úr því að bankanum sýnist um megn að fara með þetta listaverkasafn, sem er allmikið að vöxtum, og sýna listamönnum og verkum þeirra þá virðingu sem þeim ber, er ráðherra sammála því viðhorfi sem fram hefur komið að bankanum væri sæmst að afhenda Listasafni Íslands listaverk í eigu sinni?