152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er sannarlega af nógu að taka. Eins og hv. þingmaður kemur inn á er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga æði misjöfn en hún er almennt mjög lág. Það er almennt mjög lág framfærsluupphæð sem fólk sem er á framfæri sveitarfélaga fær og það er meðvituð ákvörðun hjá þessari ríkisstjórn að beina flóttafólki frá Úkraínu þessa leið, að gefa því ekki sömu tækifæri og fólki sem fær alþjóðlega vernd á Íslandi, sem það á sannarlega rétt á að fá miðað við þá stöðu sem uppi er í Úkraínu, en fara þess í stað aðra leið sem gefur Útlendingastofnun heimild til þess að leggja bara umsókn þess um stöðu flóttamanns til hliðar í allt að þrjú ár. Það er það sem þau eru að gera með virkjun 44. gr. Þau eru í raun að koma í veg fyrir að fólk frá Úkraínu geti sótt sér þann rétt sem það á samkvæmt lögum. Það er það sem er verið að gera. Ef þau gætu sótt sér þann rétt og fengið stöðu flóttamanns, sem er alveg hægt að setja í flýtimeðferð, það höfum við séð t.d. gagnvart umsóknum frá Venesúela, það er alveg hægt að flýta þeim umsóknum vel í gegnum kerfið, það er ekkert mál — þess í stað ætla þau að setja alla á sama bás, sem er að þau fái mannúðarleyfi sem fylgir einmitt ekki atvinnuleyfi. Þó að þau gætu og vildu þá geta þau þannig ekki unnið fyrir sér og eru tilneydd til að fara á framfærslu sveitarfélaga sem, eins og ég kom inn á, er frekar lág en verður þá líka þung byrði, eins og hv. þingmaður kom inn á, á fjárhag sveitarfélaganna ef ekkert verður að gert. Það er því sjálfskaparvíti, eða ekki, það fer eftir því hvernig litið er á bókhaldið hjá ríkisstjórninni, að fara þessa leið. Það væri hægt að fara miklu mannúðlegri leið, leið sem væri betur í samhengi við réttindi sem fólk frá Úkraínu hefur. En sú leið er ekki valin og mér er spurn hvers vegna. Mín upplifun hefur verið sú að það sé til að reyna að þvinga ógeðfellt útlendingafrumvarp hæstv. dómsmálaráðherra í gegnum þingið og nota til þess krísuástand í Úkraínu. (Forseti hringir.) Ég vildi bara kanna hvort hv. þingmaður væri ekki sammála því að það muni ekki gerast á okkar vakt.