Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

eútlendingar.

382. mál
[16:26]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir afar góða og áhugaverða ræðu. Ég tók eftir því að hún ræddi um samráð og ég tek undir það með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að samráðið hefur verið afar lítið. Að mínu mati hefur þetta engan veginn verið samráð heldur einhvers konar áheyrn. Þegar þú átt samráð við hópa þá kalla ég eftir því að þeir hópar eigi einhverja raunverulega möguleika á að hafa áhrif á ferlið. Ég get bara ekki með nokkru móti séð að þeir ótalmörgu hópar sem hafa veitt umsagnir, og að mér skilst komið á fundi nefndarinnar, hafi haft þann möguleika. Það blasir við við lestur umsagnanna að það hefur ekkert mark verið tekið á þeim. Ofan á það að leyfa ekki þeim hagsmunaaðilum sem hafa komið með þessar umsagnir að hafa áhrif á ferlið fréttum við það núna að til standi að gera breytingar á frumvarpinu en við fáum þær ekki til umfjöllunar. Það að þær verði ekki hér til umfjöllunar á Alþingi, í 2. umr., þykir mér sýna í verki að samráðið er ekki í boði. Samráð er ekki í boði. Það er bara í boði að taka við því sem á að gera, taka bara við því og samþykkja það. Mér þykja þetta afar sorgleg vinnubrögð.