Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:19]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég hef tekið eftir því í málflutningi stjórnarliða að þeim virðist mjög umhugað um skilvirkni. Mikið er talað um hversu margt fólk geti komið hingað og þá á þá leið að það væri afar slæmt ef hingað myndi mögulega koma fólk sem ekki ætti tilkall til alþjóðlegrar verndar á Íslandi.

Nú höfum við verið að horfa upp á framkvæmdaraðila ríkisins í þessu máli ítrekað gerðan afturreka með ákvarðanir hvað varðar frávísanir. Ég spyr mig, og langar að spyrja þingmanninn hvort hún deili þeirri skoðun, hvort það sé ekki alveg jafn slæmt ef við erum að vísa frá fólki sem raunverulega á hér tilkall til að njóta alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Ég segi fyrir mitt leyti að mér þykir það vera miður að það gleymist í umræðunni að á þessum peningi séu tvær hliðar, að við séum ekki bara að horfa á að hingað komi mögulega fólk og hljóti vernd sem ekki eigi rétt á henni, sem ég hef ekki heyrt að séu endilega mörg dæmi um, en hvort það sé ekki líka vert að passa alveg jafn mikið upp á að við séum meðvituð og veitum þeim sem hingað koma og sannarlega eiga rétt á að hljóta hér alþjóðlega vernd, að við sinnum þeim hópi líka og pössum upp á að sá hópur hljóti hér alþjóðlega vernd.