145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þarna er kristaltært dæmi, finnst mér, um skammtímahugsun, stefnuleysi og hringlandahátt hjá hv. stjórnarliðum. Það er nýbúið að samþykkja stefnu fyrir Þjóðskjalasafnið og birta hana á netinu og vinna það með hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þar sem fram kemur að safnið skuli vera á Laugavegi 162. Búið er að fara í endurhönnun og teikna endurbyggingu fyrir húsnæðið. Síðan dettur meiri hluta fjárlaganefndar það í hug að sniðugt væri að nýta þetta húsnæði fyrir hótel af því að það er á svo góðum stað í bænum. Þetta lýsir miklu skilningsleysi á því mikilvæga safni, sem á að vera aðgengilegt fyrir almenning, fyrir stjórnsýsluna og fyrir fræðasamfélagið, og það þarf að vera miðsvæðis. Það á bara að vera þar sem það er og fylgja á stefnumörkun sem nýbúið er að gera en ekki að láta sér detta það í hug, af því að núna eru svo margir ferðamenn, (Forseti hringir.) að þá skuli bara selja Þjóðskjalasafnið.