148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

skerðing bóta fólks í sambúð.

[11:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það er aðskilnaðarstefna í gangi í boði ríkisins. Það er stefna stjórnvalda að skilja að veikt fólk, eldri borgara þessa lands. Hún fer fram á þann hátt að ef þessir einstaklingar ætla að ganga í hjónaband eða búa saman þá missa þeir 60.000 kr. á mánuði, hver einstaklingur, 120.000 kr. samtals, 80.000 kr. eftir skatt.

Við skulum aðeins gera okkur grein fyrir því hvað það þýðir á mannamáli. Það þýðir að verið er að skattleggja þetta fólk, veikt, slasað, gamalt fólk, aukalega um 20%. Heimfærið það yfir á hv. alþingismenn. Hvernig væri staða alþingismanns sem fengi það sama? Jú, við erum að tala um 250.000 kr. aukaskatt, 500.000 kr. hjá hjónum sem væru með sömu tekjur, 300.000 kr. eftir skatta. Dettur okkur í hug að setja það í lög?

Ég spyr: Hvernig stendur á því að þetta sé við lýði? Hvernig getum við varið það gagnvart mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og því sem við erum nýbúin að lögfesta, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

Það er ekki nóg að þeir einstaklingar sem eru á lífeyrislaunum séu skertir vegna hjónabands, það er einnig vegna sambúðar við börnin sín, einstaklinga, hvort sem þeir eru fatlaðir einstaklingar, hjón, ellilífeyrisþega. Ég veit um ellilífeyrisþega sem eru með fatlaðan einstakling heima hjá sér; þau eru öll skert. Þá eru teknar 180.000 kr.

Hvers vegna í ósköpunum leyfum við þessu að viðgangast?

Ég spyr forsætisráðherra: Ætlar hún að gera eitthvað í þessu strax? Eða finnst henni eðlilegt að taka einn hóp út og skerða hann á þennan hátt?

Ég spyr líka í því samhengi: Hvernig stenst þetta stjórnarskrána?