Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

Ferðaþjónustan á Íslandi í kjölfar Covid-19.

[11:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að bregðast við ágætu uppleggi hv. málshefjanda með því að benda á tvö atriði sem gætu skipt sköpum við að efla ferðaþjónustuna, treyst hana í sessi og gagnast landinu öllu. Hér er ég á mjög svipuðum slóðum og hv. þm. Logi Einarsson því að fyrra atriðið varðar betri nýtingu á landinu öllu, þeirri auðlind sem í Íslandi felst. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til stjórnvalda þegar um er að ræða stærstu útflutningsgreinina að þau búi til hvata til þess að auðlindin nýtist sem best. Þar á ég m.a. við að hætt verði að rukka aukalega fyrir að flugvélar taki eldsneyti á flugvöllum á landsbyggðinni, raunar ætti frekar að hafa það ódýrara þar til að búa til hvata, en einnig getur það þýtt beinan stuðning eins og þegar við settum á flugþróunarsjóðinn. Í því fælist góð fjárfesting. Allir hvatar sem stuðla að því að landið nýtist betur og við fáum meira út úr auðlindinni ættu að teljast jákvæðir og munu skila sér í auknum tekjum til greinarinnar og fyrir vikið til ríkissjóðs. Hins vegar verður vart þess viðhorfs hjá ríkisstjórninni að ferðamenn og ferðir fólks almennt séu ekkert endilega æskilegar. Við sjáum þetta t.d. í yfirlýsingum vegna loftslagsráðstefnunnar að það er talið óæskilegt að fólk sé allt of mikið á ferðinni af því að þá losi það kolefni. Stjórnvöld verða hér að ákveða sig í hvorn fótinn þau ætla að stíga. Seinna atriðið varðar menningartengda ferðaþjónustu, þ.e. að útvíkka greinina í þeim skilningi að fólk hafi fleira hingað í að sækja heldur en fyrst og fremst náttúruna.. En ég fer yfir það í seinni ræðu minni.