131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:54]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég hef þegar sagt standa þessar atvinnugreinar, bæði garðyrkjan og fiskeldið, núna frammi fyrir nokkuð breyttu umhverfi hvað varðar raforkukaup. Þær hafa notið sérmeðferðar, ef svo má að orði komast, en garðyrkjan hefur þó notið styrkja af fjárlögum sem eru undir landbúnaðarráðuneytinu. Ekki er um það að ræða að á því verði breyting. Það þarf a.m.k. pólitíska ákvörðun til að svo verði.

Málefni þessara atvinnugreina hafa verið til umfjöllunar hjá okkur í ráðuneytinu í samvinnu við Orkustofnun. Við höfum kannski ekki alveg séð það út hver útkoman verður þegar á allt er litið. Ég minni samt á að nú 1. janúar geta fyrirtækin valið sér raforkusala og það skapar ákveðin tækifæri í samkeppni, sem skiptir náttúrlega máli. En þetta er mikilvægt mál. Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á að það fari ekki eins og þeir hafa spáð sem verst spá, að rekstrargrundvellinum verði gjörsamlega kippt undan garðyrkju og fiskeldi. Ég útiloka þó ekki að um hækkun geti orðið að ræða til þessara atvinnugreina.