132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[12:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að bera þetta mál hér inn á þing, stöðu kaupskipaflotans. Jafnframt verð ég að furða mig á því hve hægt gengur í þessum málum. Hinn 7. júlí 2004 skrifuðu Samtök atvinnulífsins og stéttarfélag sjómanna ráðherrum, fjármálaráðherra og samgönguráðherra, bréf og óska eftir tafarlausum aðgerðum. Ekkert hefur gerst. Hæstv. ráðherra ætlar núna að fara að skoða málið. Hér kemur hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, og telur þetta afar brýnt mál — en ekkert er gert. Eimskip, óskabarn þjóðarinnar, er að fara úr landi. Samskip eru farin úr landi. Skipasmíðaiðnaðurinn er að fara úr landi, hátækniiðnaðurinn er að fara úr landi.

Nú er það svo að sérstakar reglur innan Evrópusambandsins sem við erum aðilar að, á Evrópska efnahagssvæðinu, kveða á um að hægt sé að veita stuðning, ívilnanir fyrir kaupskipaútgerðir til að halda þeim í landinu. Þessu er ekki beitt hér. Við erum hins vegar reiðubúin að veita álbræðslum alls konar ívilnanir, greiða niður álbræðslur í landinu, en þegar kemur að kaupskipaútgerðinni eða skipasmíðaiðnaðinum — nei, þá skal hann fá að fara úr landi.

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að efla strandsiglingar við landið, ítrekað, nú síðast með þingmönnum Frjálslynda flokksins. Við krefjumst þess að stjórnarflokkarnir komi ekki bara upp og tali í þessu máli, málefnum kaupskipaútgerðarinnar, heldur grípi til tafarlausra (Forseti hringir.) aðgerða til að tryggja heimilisfesti íslenskra kaupskipaútgerða á Íslandi.