138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er gerð alvarleg atlaga að atvinnu í landinu. Menn ráðast ekki bara á áhættuféð sem er nauðsynlegt til að viðhalda atvinnulífinu og skapa ný störf heldur er verið að hækka tryggingagjaldið sem er í reynd greiðsla atvinnurekenda fyrir að hafa menn í vinnu. Það er verið að hækka það umtalsvert, um 1,6% — (ÖJ: Að kröfum SA.) Ég vissi ekki að hæstv. ríkisstjórn hlýddi SA en það er þá alveg nýtt. Hér er verið að hækka skatta á atvinnu um 1,6% af launum allra landsmanna sem þýðir um 6.000 kr. hækkun á meðalíslending í vinnu. Þetta kann að valda því að sum fyrirtæki sem eru mjög tæp fari á hausinn og önnur sem standa illa segi upp fólki. Með þessu er verið að búa til atvinnuleysingja, frú forseti, (Forseti hringir.) og mér finnst það mjög neikvætt. Ég segi nei.