148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

staða tjáningar- og upplýsingafrelsis á Íslandi.

[10:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Árið 2010 var samþykkt hér með öllum atkvæðum þingsályktun um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Hið sama ár vorum við reyndar í 1. sæti á lista sem er kallaður „freedom of press index“, sem er gefið út af „Reporters Without Borders“. Í dag erum við í 13. sæti, niður um þrjú sæti frá því í fyrra þegar við vorum í 10. sæti. Hlutirnir hafa versnað. Það er sérstaklega tilgreint í umfjöllun þessara góðu samtaka að við höfum samþykkt þessa þingsályktun árið 2010. Það er líka tekið fram að ástandið hafi versnað síðan 2012 vegna þess að samskipti fjölmiðla og yfirvalda hafi versnað.

Það eru mýmörg dæmi sem væri hægt að taka hérna fram, alla vega frá því ég steig fyrst á þing árið 2013, en ég er viss um að allir í þessum sal og allir áhorfendur geti ímyndað sér nokkur dæmi um það þegar samskipti yfirvalda við fjölmiðla á Íslandi hafi verið til skammar, vil ég segja, og fyrir neðan allar hellur. Þess vegna ef við ætlum að ná þessu markmiði að verða best í vernd uppljóstrara og þeirra sem fjalla um íslensk stjórnmál, þá þurfum við að taka til hendinni.

Nú veit ég að þegar IMMI-hópurinn starfaði á sínum tíma voru einhverjar tafir á starfi hans. Á endanum komu fram frumvörp frá fyrrverandi þingmanni, Birgittu Jónsdóttur, á sínum tíma, ekki frá ríkisstjórninni. Núna skilst mér að starfshópur sé aftur að störfum þar sem einmitt téður fyrrverandi þingmaður, Birgitta Jónsdóttir, er einnig, sem er mjög jákvætt.

En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað það er sem tefji. Hvenær getum við horft fram á þá tíma að við fáum hérna inn frumvörp sem eru til þess ætluð að við náum þeim háleitu mikilvægu markmiðum sem við einsettum okkur að gera fyrir átta árum?