150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

meðhöndlun lögreglu á fólki í geðrofi.

[15:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Eins og hann tók ég eftir umfjöllun um lögregluna og þessi mál sérstaklega. Það hefur verið kallað eftir því að verklag lögreglu sé skoðað. Það er auðvitað sjálfsagt og það er undir lögreglunni komið og nýtt lögregluráð sem tekur til starfa í næstu viku er tilvalinn vettvangur til að öll lögreglulið landsins og héraðssaksóknari geti rætt slíkar breytingar með ríkislögreglustjóra. Ég bind miklar vonir við að það samtal muni gagnast lögreglunni vel í hinum ýmsu málum. Lögreglumenn sinna auðvitað vandasömum verkefnum á hverjum degi og við eigum frábært lið lögreglumanna sem sinnir fjölmörgum útköllum þar sem fólk er aðstoðað sem glímir oft við andleg veikindi og misnotar fíkniefni o.fl. Þá er mikilvægt að lögreglan sé líka í stakk búin til að taka á þeim málum og þekki aðstæður og þekki einkenni og kalli til aðra viðbragðsaðila eins og hv. þingmaður nefnir, líkt og sjúkrabíla og aðra til aðstoðar sé þess þörf. Ég held að með breytingum í samfélaginu og meiri þekkingu á geðrænum vandamálum og þeim áskorunum færist það til betri vegar og að þekking og umræða sé bara til þess að bæta og vonandi endurskoða verklag sé þess þörf.