Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

Ferðaþjónustan á Íslandi í kjölfar Covid-19.

[11:37]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Milljónir manna um allan heim dreymir um að ferðast til Íslands. Ísland er í þeirri stöðu umfram margar aðrar þjóðir að ferðaþjónustan hefur tekið verulega hratt við sér eftir heimsfaraldur og m.a. vegna aðgerða stjórnvalda. Við höfum hins vegar heyrt því fleygt fram að Ísland sé uppselt, að ekki sé hægt að taka á móti fleiri ferðamönnum, en það er hreinlega ekki rétt því að við þurfum einfaldlega að styrkja innviðina. Í því ljósi er mikilvægt að styðja við ferðaþjónustuna líkt og aðrar greinar. Framlög til ferðaþjónustunnar hér á landi eru ekki há í samanburði við aðrar greinar þrátt fyrir að um sé að ræða eina af mikilvægustu atvinnugreinum okkar. Víða um land er kallað eftir aukinni fjárfestingu, sér í lagi á landsbyggðinni. Á sama tíma er takmarkað aðgengi að lánveitingum til fjárfestinga í ferðaþjónustu, sem er áhyggjuefni. Þörf er á gistirýmum í hærri gæðum og seglum á svæði, t.d. eins og fyrir austan og vestan, og ljóst er að ekki er hægt að ráðast í slíkt án fjármagns. Við þurfum að taka umræður um gjaldtöku af meiri festu og mikilvægt er að hluti af allri gjaldtöku fari beint í að styrkja frekar innviði atvinnugreinarinnar. Þá þarf í þessari vinnu að gæta þess að ferðaþjónustan hafi gott svigrúm til þess að koma auknum gjöldum inn í verðskrár enda eru þær ákvarðaðar langt fram í tímann.

Í lokin langar mig að minnast örstutt á eitt málefni sem lýtur að sérstöðu okkar, sérstöðu landsins, íslenskunni. Ísland er áhugavert land, m.a. vegna íslenskrar tungu. Það hefur því miður verið tilhneiging síðustu ár að enskan taki yfir sem tungumál ferðaþjónustunnar. Æ fleiri fyrirtæki bera ensk nöfn og enskuvæðing á skiltum er orðin áberandi. Leyfum ferðamönnum að sjá og lesa íslenskuna okkar því að það er viss upplifun út af fyrir sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)