Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið. Tímans vegna ætla ég ekki að endurtaka mikið af því sem ég var að segja. Ég er að fjalla um a-lið 1. gr. frumvarpsins í samspili við 7. gr. frumvarpsins, þar sem er verið að búa til nýtt hugtak í lögunum um endurtekna umsókn, sem væri gott og blessað ef þar væri ekki um leið verið að fella niður rétt fólks til að fá endurupptöku máls síns vegna nýrra gagna eða breyttra forsendna, svo sem ef tímafrestur hefur liðið.

Ég ætla að klára að lesa ákvæðið sem lagt er til í þessu frumvarpi og bið fólk þegar ég les að hafa í huga mál einstaklings sem kemur til Íslands eftir að hafa fengið vernd í Grikklandi. Stjórnvöld hafa tekið meira en 12 mánuði í að afgreiða málið og einstaklingur fer fram á endurupptöku málsins vegna þess að tímafrestur er liðinn, þar sem fólk á skv. 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga rétt á efnismeðferð ef 12 mánuðir eru liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og þá er meðferð málsins ekki á ábyrgð umsækjanda. Eftir breytingarnar, ef þessu frumvarpi verður hleypt í gegnum þetta þing, sem ég ætla rétt að vona að muni ekki gerast, þá verður ekki um neinar endurupptökur að ræða. Flóttafólk getur ekki sótt um endurupptöku máls síns. Sá grundvallarréttur í stjórnsýslulögum verður afnuminn, bara fyrir flóttafólk. Í staðinn verður litið á beiðni um endurupptöku sem endurtekna umsókn og hlustið nú vel, með leyfi forseta:

„Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr.

Verði endurtekin umsókn tekin til meðferðar skal málsmeðferð hennar fyrst og fremst taka mið af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem liggja henni til grundvallar. Endurtekin umsókn telst ekki framhald fyrri umsóknar í skilningi 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 74. gr.“ — sem eru tímafrestsákvæðin. Áfram heldur, með leyfi forseta: „Óafgreiddar umsóknir falla niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar“ — þ.e. ef viðkomandi er flutt — „eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur á meðan endurtekin umsókn er til meðferðar, enda hafi réttaráhrifum fyrri ákvörðunar ekki verið frestað.“ — Sem er aldrei gert í þessum málum.

Áfram heldur, með leyfi forseta: „Endurtekinni umsókn skal beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endurskoðunar á og frestar ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd.“ — Á þetta er aldrei fallist í þessum málum, aldrei. Áfram heldur, með leyfi forseta: „Endurtekinni umsókn skal þó beint að Útlendingastofnun hafi umsækjandi farið af landi brott samkvæmt fyrirmælum fyrri ákvörðunar en komið aftur til landsins.“

Það er því alveg kýrskýrt af þessum ákvæðum að þeim er ætlað að koma í veg fyrir það að einstaklingar sem eiga rétt á endurupptöku máls síns og efnismeðferð, vegna þess að það hefur ekki tekist að flytja þau úr landi innan frests, geti leitað réttar síns með öllum tiltækum ráðum, og það ansi klaufalegum, verð ég að segja. Þessi útfærsla er með öllu algjört lögfræðilegt slys eins og má kalla það. Ég ætla að grípa aðeins niður í greinargerðina, um 7. gr. frumvarpsins, þó að tími minn sé á þrotum. Ég verð bara halda áfram í annarri ræðu. Ég ætla samt að nýta þann litla tíma sem eftir er til að byrja. Um 7. gr. frumvarpsins segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna sem gerir útlendingum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd kleift að fá ákvarðanir í málum sínum teknar upp að nýju á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.“

Ég ætla að láta þarna staðar numið. Það er sagt berum orðum, kemur fram í greinargerðinni, að það á að fara að rugla því saman þegar einstaklingur hefur fengið niðurstöðu í máli sínu og ætlar að sækja um aftur — sem Flóttamannastofnunin hefur verið skýr um að fyrir þá málsmeðferð eru gerðar tilteknar kröfur sem hafa hins vegar ekkert með þetta að gera. Þetta snýst um endurupptöku. Þetta snýst um beiðni um endurupptöku, segjum bara vegna tímafrests. Það verður ekki hægt lengur. Ég bið forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.