154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði vegna ástandsins í Grindavík.

[17:35]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er jákvætt að heyra að vinnan gangi vel og þetta var auðvitað mjög umfangsmikil vinna, 11 hópar. Það er ekkert lítið. Það er einmitt spurning hvort það sé einhver leið til að innleiða þætti með öðrum hætti ef það er einhver ávinningur af því, að sjálfsögðu. Það er náttúrlega spurningin mín.

Varðandi einingahúsin þá eru þau kannski eitthvað sem henta ekki öllum Grindvíkingum en það er gott að verið sé að skoða það. Ég velti því aðeins fyrir mér hvort hæstv. ráðherra þekki stöðuna á lóðum og framboði á þeim, hvort þar sé einhverju ábótavant eða hvort staðan sé kannski betri en við höldum. Það væri gott að fá það fram og þá hvar á landinu slíkar lóðir eru til taks, hvort þær eru frekar á Reykjanesskaganum heldur en á höfuðborgarsvæðinu, því að manni finnst ólíklegt miðað við hvernig umræðan hefur verið á sveitarstjórnarstiginu að það sé mikið af lóðum á höfuðborgarsvæðinu. En það væri gott að vita hvort það sé eitthvað aðeins á suðvesturhorninu.