145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hvorki hv. þm. Birgir Ármannsson eða aðrir ákveða hvort umræðan er búin. Ef fólk telur sig þurfa að tala hér í þinginu, þá gerir það það. (HöskÞ: Það er misnotkun á …) (Gripið fram í: Höskuldur!) Þú ert búinn að fá þín tvö slott, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, þannig að þú þarft væntanlega ekki að tala meira (HöskÞ: Þú ert búin að fá 700 klukkutíma.) (Forseti hringir.) samkvæmt því sem þingflokksformenn ykkar segja.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg þetta stand á stjórnarmeirihlutanum að vilja ekki taka velferðarmálin hér inn. Ég átta mig bara ekki á því hvers vegna ríkisstjórnin kýs þá að gera þetta að sínu forgangsmáli þegar hún segir sjálf að þetta sé lítil breyting á Þróunarsamvinnustofnun. Það er auðvitað umræðuefni út af fyrir sig að velta því fyrir sér hvers vegna þetta er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Þegar við erum komin hér fram í 17. desember liggur fyrir að mörg mál eru óafgreidd og við þurfum að komast að einhvers konar samkomulagi um það hvernig við ætlum að klára þessa umræðu ef við ætlum að komast heim fyrir áramót, ef við ætlum að afgreiða dagsetningarmál, ef við ætlum að klára fjárlagaumræðuna. Það er bara þannig. (Forseti hringir.) Og til þess þarf fólk að setjast niður, eins og ég hef áður sagt, og tala saman, þ.e. þingflokksformenn stjórnar og stjórnarandstöðu.