145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði að hún hefði ekki hugmynd um það hvað stallsystir okkar, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, hefði átt við þegar hún sagði að eitt af markmiðunum með því að breyta Þróunarsamvinnustofnun með þessum hætti væri að samhæfa verkefni í þróunarsamvinnu við önnur verkefni utanríkisráðuneytisins. Ef enginn getur svarað því, er þá ekki nærtækast að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir svari því sjálf? Jú, ég hef hér fyrr í dag mörgum sinnum innt hana eftir því hvað þetta þýði. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram hvað átt er við. Það getur ekki verið flókið mál að útskýra þetta, hæstv. ráðherra hefur sannarlega sagt, mörgum sinnum held ég, fyrr í þessari umræðu að hér sé ekki átt við að það verði einhvers konar nábýli og mengun milli utanríkisviðskipta og þróunarsamvinnu. Ég hef sagt við þingmenn sem hafa rætt þetta mál við mig yfir ræðupúltið að ég hef ekki nokkra trú á því að slíkt vaki fyrir hæstv. ráðherra, en það vill svo til að hér hafa talað þingmenn í dag sem kalla sjálfa sig hina nýju vendi Framsóknarflokksins, töluðu um sjálfa sig sem nýtt fólk. Sannarlega getum við hæstv. utanríkisráðherra ekki endilega fellt okkur í þann flokk. Enginn veit hversu löng ævi okkar á þinginu verður þannig að það er hugsanlegt að nýtt fólk komi í stað okkar, maður í manns stað, og að einhver annar taki við af hæstv. utanríkisráðherra, hugsanlega einhver af þeim sem sitja í utanríkismálanefnd. Þarf þá ekki að liggja fyrir hvað það er sem þau eiga við með þessu? Í mínum huga er um lykilatriði að ræða.

Herra forseti. Ég hef í ýmsum ræðum og andsvörum í dag fjallað örlítið um það hvílík vonbrigði mér eru að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir virðist ekki einu sinni vera reiðubúin að skoða þær hugmyndir að sátt sem er að finna í tillögum okkar. Ég sagði að það hefði vakið mér vonbrigði og ég vil jafnvel vera svo róttækur í orðavali að kalla að ég sé sorgmæddur yfir því vegna þess að enginn þingmaður sem á sæti á hinu háa Alþingi hefur undirstrikað jafn skýrt og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hversu mikilvægt það sé að taka hér upp ný vinnubrögð. Ég hef sæg af tilvitnunum, þá elstu tíu ára gamla, í hv. þingmann allar götur frá því að hún tók, við litlar vinsældir ritstjóra Morgunblaðsins, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og forustu flokksins, að sér að vera forseti borgarstjórnar í skjóli annars meiri hluta en Sjálfstæðisflokksins. Hún gerði það með vísan í það að nauðsynlegt væri að innleiða ný vinnubrögð í íslensk stjórnmál. Þetta hefur hún allar götur síðan endurflutt með einhverjum hætti og það var gleðilegt að rekast á tilvitnun í hana frá því daginn eftir kosningar þegar ljóst var að nýir flokkar væru að taka við landsstjórninni, hún sagði að þjóðin hefði sannarlega kosið sér nýja ríkisstjórn og það væri til marks um að fólkið í landinu vildi breytt fyrirkomulag í stjórnmálunum, það væri að kalla eftir nýjum tímum. Hvað er það, herra forseti, sem fólkið í landinu var að kalla eftir? Því að á það væri hlustað og eftir samvinnu og víðtækri sátt í stjórnmálunum.

Hér leggur stjórnarandstaðan fram tillögu til sátta í mikilvægu máli, deilumáli sem hefur slitið þingið sundur, a.m.k. hvað varðar þennan mikilvæga málaflokk, þróunarsamvinnu. Þegar rétt er út sáttarhönd finnst hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þingmanninum, manneskjunni, konunni sem kallar eftir nýjum vinnubrögðum og víðtækri sátt, það ekki einu sinni svara vert. Ég spyr, herra forseti: Hvar er formaður utanríkismálanefndar? Hvernig stendur á því að þeim spurningum sem til hennar hefur verið varpað er ekki svarað?