146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn gekk úr salnum. [Hlátur í þingsal.] Velkominn aftur. Við höfum nú átt ágætisskoðanaskipti. Þegar menn ræða samningsumboð, af því að við höfum báðir reynslu af því að vinna með sveitarfélög sem ábyrgðarmenn þess þá hef ég nú seint séð formann bæjarráðs Akureyrar afhenda sviðsstjóra umboð til kjarasamningsgerðar fyrir tiltekna starfshópa. Hlutirnir ganga þannig að það eru verkaskipti milli aðila. Menn verða bara að undirgangast þá ábyrgð sem þeir eiga að bera hverju sinni. (LE: Taka bara það sem að þér er rétt?) Svona, rólegur, Logi.

Aðeins um það sem hv. þingmaður nefnir varðandi vinnulagið. Það væri miklu æskilegra að við gætum haft betri tíma til að vinna hvort tveggja, fjárlögin fyrir árið 2017 og ekki síður fjármálaáætlunina. Engu að síður eru þetta hvort tveggja samþykktir sem við erum búin að gera. Þingið vann í ágætum samhljómi á síðustu vikum síðasta árs við að gera fjárlög án þess að komin væri ríkisstjórn. Það breytti því ekki að við gátum ekki náð saman um endanlega afurð. Við unnum þetta þokkalega svona hratt. Tiltölulega hratt. En þessi áætlun er unnin innan svo knapps tímaramma að … (Gripið fram í.) — Hún er það, ég hélt að hv. þingmaður kynni á dagatal. (Gripið fram í.) Hún er unnin innan mjög knapps tímaramma sem ég er nokkuð sannfærður um — nema kosningar muni aftur brjóta upp þingið — að ef það gerist ekki aftur verður áætlunin unnin með allt öðrum hætti á næsta ári, ég tala nú ekki um á því þar næsta. (Gripið fram í.)