146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er gleðilegt og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að eðlilegra er að fjármagnið fari í innviði þar sem búið er að leggja vinnu í frumvarp á síðasta kjörtímabili og greiningu á því hvað þarf. Ég veit að það þarf meiri fjármuni, sérstaklega nú fyrstu þrjú til fjögur árin. Ég hef áhyggjur af því að þegar að því kemur að ráðherra fer að deila út þessu fé þarf hann líka að reikna með því að það er 2% aðhaldskrafa á ráðuneytið. Aðhaldskrafan í þessu ráðuneyti er af stærðargráðunni 320–350 milljónir á ári. Þeir peningar verða ekki notaðir tvisvar þegar þarf að fara í aðhald. Það er ekki hægt að setja þá látlaust í ný verkefni. Það verður þá að taka þá af þessum viðbótarramma áður en menn fara í ný verkefni. Það verður erfitt.

Ég sá ekkert hér í sambandi við vatnamál, um fráveitur sveitarfélaga, og skil það þar af leiðandi þannig að þessi ríkisstjórn ætli ekki að taka á því. Það er auðvitað sérkennilegt. Við stöndum frammi fyrir verulegum þrýstingi, m.a. frá sveitarstjórninni við Mývatn og öðrum sveitarfélögum sem finnst eðlilegt að þau sitji við sama borð. En ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra, og þakka auðvitað fyrir vilja til að deila því með þinginu, en þessi umræða hér í dag er marklaus, herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun og það eina sem við sjáum eru niðurstöðutölur málefnasviðsins fimm ár fram í tímann. Og síðan talar ráðherrann hér um áherslur. Er búið að taka fjárveitingavaldið af þinginu? Er það núorðið hæstv. ráðherra sem getur bara ákveðið hvernig þessum milljarði verður skipt án þess að við getum, tvisvar sinnum á tveimur mínútum sem hver þingflokkur hefur til viðtals, tekið umræðu um áherslurnar í fjármálaáætluninni? Þetta er ekki pólitísk áætlun. Þetta er fjármálaáætlun.