146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stór hluti af því að vera eftirlitsstofnun er að vita hvað er verið að gera og hvernig við getum vitað hvort það tekst. Ef mælanleg viðmið vantar höfum við ekki hugmynd um hvort markmiðin náðust eða ekki. Ég hefði áhuga á að vita meira um það. Er það meira á hendi sveitarfélaga varðandi byggðamálin eða lýðræðislega aðkomu að segja hvort tókst til þar eða ekki?

Fyrst hæstv. ráðherra hafði lítinn tíma til að svara um Vaðlaheiðargöng mætti gefa honum annað tækifæri til þess í seinna andsvari. Fjárlaganefnd hefur fengið heimsóknir frá aðilum Vaðlaheiðarganga þar sem því var lýst að það vantaði pening. Nú erum við í þeirri stöðu að það eru lög frá Alþingi um upphæð ríkisábyrgðar frá Alþingi upp á 3,7 milljarða. Til að bæta við upphæð til byggingar ganganna þyrfti væntanlega að breyta þeim lögum sem heyra undir ríkisábyrgð. Það þarf að gefa álit um hvort það sé gáfuleg tilhögun, hvort það sé Ríkisábyrgðarsjóður eða ríkisábyrgðarnefnd sem gefur þá umsögn.

Það var ekki vel útskýrt fyrir okkur hvernig viðskiptamódelið ætti að geta staðið undir sér. Við fengum mjög óljós gögn um það. Það væri mjög ánægjulegt að heyra hvort samgönguráðherra hefur einhver nánari gögn um af hverju þetta samskiptamódel ætti að ganga, því að það byggist á gömlum gögnum (Forseti hringir.) Hvalfjarðarganga sem ég sé ekki að geti verið sjálfbær.