148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa áhugaverðu umræðu. Hún hefur tilhneigingu til að verða áhugaverðari, eftir því sem tíminn líður, þegar við ræðum mál sem hafa einhvers konar skírskotun til þjóðkirkjunnar eða trúarbragða almennt. Að mínu mati er það vegna þess að við erum enn þá með ríkiskirkju hér á Íslandi. Ég segi enn þá, vegna þess að það er tímaskekkja sem mun verða löguð einn daginn. Það er bara spurning hvort við höldum áfram áfram eða förum eitthvað aftur á bak. Það er ekki gagnrýni á þjóðkirkjuna sem stofnun eða sem trúfélag. Það er ekki gagnrýni á kristna trú. Ég gæti alveg sett fram gagnrýni á kristna trú, en ég ætla ekkert að gera það vegna þess að það kemur málinu ekkert við. Þetta snýst um hlutverk ríkisins hvað varðar kristna trú. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk ríkisins að skylda sveitarfélög til að afhenda trúar- og lífsskoðunarfélögum ókeypis lóðir, ég er bara ekki þeirrar skoðunar.

Hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson fór hér áðan yfir samhengið við kirkjujarðasamkomulagið. Ég hélt upprunalega að hv. þingmaður væri bara að rugla einhverju saman í sambandi við það mál, en síðan fór hann út í það að þarna væri einhver tenging sem kemur mér á óvart, ég vissi ekki af, en ég hyggst skoða. Ég vil þó segja þetta.

Ef 5. gr. þessara laga er hluti af kirkjujarðasamkomulagi, ef eitthvað í því samkomulagi meinar Alþingi að breyta þessum lögum, undirstrikar það hvað það er hörmulegur samningur. Þá undirstrikar það óheiðarleika á bak við þann samning, hvernig hann var notaður og hefur verið notaður til þess að hindra að kynslóðir framtíðarinnar fengju að ráða þessum málum sjálfar. Það er óheiðarlegt. Það er rangt. Fólk á ekki að haga sér þannig og allra síst fólk sem kallar sig kristið, þ.e. ef það er þannig að þessi 5. gr. stóli á kirkjujarðasamkomulagið. Ég á eftir að fá að staðfest. Ég ætla að skoða það. Mér finnst það áhugaverður punktur.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór hér með nokkuð góð orð áðan sem ég vil taka undir og ítreka. Við eigum að taka umræðuna um það hvort við eigum að hafa þjóðkirkju yfir höfuð. Við förum alltaf þangað þegar við ræðum þessi mál. Það er ástæða fyrir því, vegna þess að það kemur málinu við og það skiptir máli.

En hitt vil ég þó enn frekar ítreka og undirstrika, sem hv. þingmaður sagði, sem er það að við getum haft okkar tilteknu skoðanir gagnvart tilteknum söfnuðum eða lífsskoðunarfélögum. Þær skoðanir koma málinu bara ekkert við. Það þarf ekki glöggan tölvunotanda til að komast að því að ég var í stjórn félags sem heitir Siðmennt og er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Ég gæti í þeirri stjórn hafa sóst eftir því að það félag myndi sækjast eftir ókeypis lóð. Ég gerði það ekki, vegna þess að mér finnst það rangt. Ég vil ekki gera það. Frekar vil ég breyta lögunum þannig að jafnræði sé á milli trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Ég vil bara ítreka og undirstrika aftur þessi góðu orð frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni og gera þau að mínum enn og aftur.

Hvað varðar umræðu hér um hið svokallaða samkeppnisforskot sem trúfélög sem áður hafa komið hafa á þau sem koma eftir á, þá finnst mér það áhugaverð umræða. Ég velti því samt fyrir mér upp að hvaða marki við getum tekið eitthvað slíkt og látið það stjórna ákvörðun okkar um framtíðarfyrirkomulag sem mismunar á grundvelli trúarbragða. Ég sé ekki alveg hvernig við getum leyft okkur það, vegna þess að það er alltaf einhver sem kom á undan. Hvað ef við settum þetta upp í samhengi við kynjajafnrétti? Það eru alls konar forskot þar.

Það sem mér finnst alla vega óásættanlegt er að við getum ekki breytt þessu, að það sé eitthvað í okkar sögu eða okkar menningu, eða í okkar stjórnarskrá, sem gerir það að verkum að við getum ekki breytt þessu. Því ætla ég ekki að trúa eina sekúndu. Ég hafna því að við getum ekki breytt þessu. Við getum alveg breytt þessu ef við viljum. Spurningin er ekki hvað okkur finnst um kristna trú, eða hvort við séum kristin eða hvort við séum aðilar að þjóðkirkjunni, eða hvað okkur finnst um hana; þetta snýst bara um jafnræði fyrir lögum fyrir mitt leyti í það minnsta. Það er það eina sem það snýst um.

Ég þakka að lokum fyrir umræðuna. Eitthvað af þeim spurningum sem hafa komið hér fram munu vitaskuld verða til umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem ég treysti að muni taka þær til skoðunar.

Að lokum langar mig að hvetja sérstaklega, það er nú ekki vani að gera þetta, einstaklinga, aðila úti í samfélaginu og sér í lagi trúar- og lífsskoðunarfélög, trúarsöfnuði og lífsskoðunarfélög, til þess að senda inn umsögn til Alþingis um þetta mál vegna þess að þetta varðar líka stærri spurninguna sem er það hvert er hlutverk ríkisins í trúmálum.

Að lokum langar mig að ljúka þessari ræðu á því að velta því upp: Er ekki svolítið skrýtið að standa hér í þessari pontu löggjafarsamkundu Íslendinga að ræða trúmál? Er það ekki svolítið skrýtið? Mér finnst það. Ég hlakka til dagsins sem við getum hætt því.