151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

loftslagsmál.

535. mál
[14:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál. Með frumvarpinu er verið að leiðrétta orðalag nokkurra ákvæða laganna sem kveða á um heimild ráðherra til setningar reglugerða auk þess sem lagt er til að innleiddar verði tvær gerðir Evrópusambandsins.

Með lögum nr. 98/2020 voru gerðar margþættar breytingar á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Breytingarnar sneru m.a. að því að ráðherra var falið að setja reglugerðir um nánari útfærslu tiltekinna atriða.

Við meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 98/2020 lagði meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til breytingar á frumvarpinu. Í ljós hefur komið að lagastoð fyrir ákveðnum reglugerðum er ófullnægjandi þar sem reglugerðarheimild þessara ákvæða er endurtekning á reglugerðarheimild sem er að finna í 5. mgr. 9. gr. laganna. Í frumvarpinu er því lagt til að reglugerðarheimildir þessara ákvæða verði lagfærðar. Að auki er lagt til að tvær gerðir Evrópusambandsins verði innleiddar og þeim bætt við 47. gr. laganna.

Önnur þeirra, tilskipun (ESB) 2018/410 uppfærir efni tilskipunar 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir fjórða tímabil viðskiptakerfisins sem varir frá 2021 til 2030. Hluti tilskipunarinnar var efnislega tekin upp í loftslagslögin með lögum nr. 98/2020 og eru ákvæði tilskipunarinnar að finna í IV. kafla laganna þar sem fjallað er um atriði tengd losunarleyfi rekstraraðila. Einnig eru ákvæði tilskipunarinnar í IV. kafla A sem fjallar um sérreglur fyrir tilteknar starfsstöðvar með losun undir ákveðnu marki og að lokum eru ákvæði hennar í VII. kafla laganna sem fjallar um nýsköpunarsjóð en hluti losunarheimilda eiga að vera til ráðstöfunar til að styðja við nýsköpunarverkefni sem leiða til samdráttar í losun.

Til stóð að innleiða tilskipunina með lögum nr. 98/2020, en í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar kom fram að ekki væri unnt að innleiða gerðina sjálfa þar sem hún hefði ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Gera verði greinarmun á því hvort verið sé að lögfesta efnisreglur Evróputilskipunar og á því að gerð sé innleidd. Í báðum tilfellum myndast lagastoð fyrir viðkomandi gerð en einungis í því síðara er um eiginlega innleiðingu að ræða í skilningi EES-réttar. Tilskipunin var síðan tekin upp í EES-samninginn þann 24. júlí 2020 og því er lagt til nú að hún verði innleidd í skilningi EES-réttar. Nauðsynlegt er að innleiða sjálfa tilskipunina en afleiddar gerðir á grundvelli hennar eru væntanlegar í EES-samninginn vegna fjórða tímabils viðskiptakerfisins.

Í tilskipun (ESB) 2020/1071 er um að ræða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sem einnig breytir tilskipun 2003/87/EB og varðar hún flug sem eru undanþegin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Verið er að gera breytingar sem snerta II. viðauka loftslagslaga en í honum eru talin upp þau flug sem eru undanþegin viðskiptakerfi ESB. Sviss gerði samning árið 2014 við Evrópusambandið um jafna meðferð á flugrekendum á leiðum, þar sem flug frá EES til Sviss eru á ábyrgð ESB og flug frá Sviss til EES-ríkja eru á ábyrgð Sviss. Þessi breyting mun ekki hafa áhrif á íslenska flugrekendur en þeir þurfa að tilkynna og standa skil á losun sinni á flugi frá EES-svæðinu til Sviss, og öfugt, alveg eins og aðra losun innan ETS-kerfisins.

Ekki er gert ráð fyrir fjárhagsáhrifum hjá ríkissjóði vegna frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.