152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Hellisheiði.

428. mál
[18:00]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Það er rétt eins og hv. þingmaður nefndi að við tókum smáumræðu um þetta hér fyrr í vetur. Það er þannig að þegar maður fer að klóra sér í kollinum og spyrja elstu menn þá er ekkert mjög langt síðan, en þó einhverjir áratugir, að þessi sama Hellisheiði gat verið lokuð í margar vikur. Ég var að ræða við einn sem hefur keyrt til Reykjavíkur í 40 ár, búandi á Selfossi, og þetta var erfiður vetur, það var, held ég, lokað í sex vikur. Þegar það var opnað var snjórinn sjö metra hátt stál. Það geta vissulega komið miklir og þungir snjóavetur. Þetta þekkja menn auðvitað annars staðar á landinu, við hérna sunnan lands erum ekki eins vön því. En vegna þess að við höfum rætt þetta áður þá var gott tækifæri að fá möguleika á að fá bestu upplýsingar og það er mat mitt, sem er m.a. byggt á upplýsingum frá Vegagerðinni, að það sem af er þessu ári hafi tekist eins vel og hægt er að ætlast til að halda Hellisheiðinni opinni. Vegurinn um Hellisheiði er mjög fjölfarinn eins og hv. þingmaður kom inn á, vegur sem er í þjónustuflokki eitt og hvað þýðir það? Jú, það er reynt að halda honum opnum allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Þetta ár hefur verið óvenju snjóþungt eða kannski fyrst og fremst óvenju illviðrasamt það sem af er og þær aðstæður hafa því skapast nokkuð oft að ekki hefur verið möguleiki á að hafa veginn yfir Hellisheiði opinn og það hefur þurft að loka honum tímabundið alls 19 sinnum frá upphafi árs og stundum lengur heldur en við þekktum hérna fyrir nokkrum árum þegar lægðirnar gengur hraðar yfir og svo kom logn og hægt var að moka. Nú hafa veður staðið yfir í meira en sólarhring, jafnvel á annan sólarhring.

Ákvörðun um lokun á vegi er tekin að vel athuguðu máli í samráði við sérfræðinga Vegagerðarinnar, veðurfræðinga sem og viðbragðsaðila og þegar aðstæður kalla á er lokun vegarins nauðsynleg til að tryggja öryggi vegfarenda. Það er reynt hins vegar að halda slíkum lokunum í lágmarki og við munum held ég öll eftir því þegar fjallað var um að menn hefðu lokað of seint og um 70 bílar sátu fastir í röð. Hver var ástæðan? Það var talsvert vont veður og fyrsti bíllinn festist, svo bara stoppuðu þeir allir. Fyrir vikið tók miklu lengri tíma að opna.

Varðandi önnur úrræði er rétt að geta þess að í jarðgangaáætlun frá árinu 2000 er fjallað um möguleg 8,4 km jarðgöng undir Hellisheiði með gangamunna við Kolviðarhól og undir Kömbum. Þar kemur jafnframt fram að jarðfræðilegar aðstæður séu ekki hagstæðar með tilliti til jarðskjálftavirkni og jarðhita og ekki ljóst hvaða tæknilegu úrlausnarefni þyrfti að eiga við og vegna mikillar umferðar er ljóst að göngin þyrftu að vera tvöföld með neyðargöngum á milli. Í nýrri yfirlitsáætlun Vegagerðarinnar frá 2021 um 18 jarðgangakosti sem eru til athugunar er ekki gert ráð fyrir frekari athugunum vegna jarðganga undir Hellisheiði að sinni.

Ég er sammála hv. þingmanni. Við þurfum að gera allt sem við mögulega getum til að tryggja að þessi mikilvægi vegur sé eins mikið opinn og hægt er. En stundum verðum við að sætta okkur við að við búum á Íslandi og við ráðum ekki við náttúruöflin.