138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[12:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða skattkerfisbreytingar og eins og á við um önnur stór mál á þessu þingi ræðum við þau á miklum hlaupum. Umsagnir hagsmunaaðila eru að detta inn þessar mínúturnar og samt sem áður liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn og spunameistarar hennar sem hafa haft heilt ár til að undirbúa málið — og tala þar sem því er við komið um fagleg vinnubrögð, opið og gegnsætt stjórnkerfi, lýðræðisleg vinnubrögð og annað slíkt — viðhafa í þessum málum eins og öllum stórum málum þau ófaglegustu vinnubrögð sem sést hafa á þingi svo áratugum skiptir. Ég efast um að nokkur þingmaður á hv. þingi, þó að einn og einn hafi verið kosinn inn um miðja síðustu öld, hafi séð önnur eins vinnubrögð. Ég efast um það, virðulegur forseti. Allt er þetta gert undir einhvers konar slagorðakenndum markmiðum, hlutirnir lagðir upp með þeim hætti að allt hafi verið svo gríðarlega vont og svo mikill skaði frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og þess vegna þurfi menn að gera upp einhverja hluti undir merkjum norræna velferðarkerfisins í þessu tilfelli og flestum öðrum.

Virðulegi forseti. Skoðum þetta aðeins. Hvað er þetta norræna velferðarkerfi? Síðast þegar ég vissi voru Norðurlöndin nokkur og misjafnt kerfi í hverju landi fyrir sig. Eitt örlítið dæmi kom fram hjá hv. þm. Árna Johnsen. Hann fór yfir gríðarlega mikinn mun á því hvernig Norðurlöndin haga t.d. sjómannaafslætti. Hvað er þá norræni sjómannaafslátturinn? Hver er hann, virðulegi forseti?

Skoðum velferðarkerfið. Hver er norræni biðlistinn í heilbrigðismálum? Er eitthvað slíkt til? Við Íslendingar höfum án nokkurs vafa náð lengst í því að afnema biðlista og gerðum það á allra síðustu missirum. Ef menn skoða tölur frá landlækni sést að síðustu ríkisstjórn tókst gríðarlega vel upp í að stytta biðlista og jafnvel leggja þá alveg af. Sá árangur er ekki til staðar á Norðurlöndunum. Er þá markmið þessarar ríkisstjórnar að ná upp í biðlistana sem eru annars staðar á Norðurlöndunum?

Virðulegi forseti. Í umhverfismálum stöndum við Íslendingar framar öðrum þjóðum, m.a. Norðurlandaþjóðunum. Er það markmið okkar að koma á einhverju norrænu velferðarmengunarstigi á Íslandi? Ég spyr vegna þess að í fullri alvöru tala talsmenn ríkisstjórnarinnar eins og að menn hafi náð einhverri himnasælu í nágrannalöndum okkar og allt sé til þess vinnandi að ná einhverju ásigkomulagi sem er þar. Íslendingar hafa t.d. ferðast, eru víða í ágætistengslum og vita að þessar þjóðir eiga ekki síður við vanda að etja en við þó að færa megi full rök fyrir því að þær hafi haft mikla forgjöf á okkar þjóð að mörgu leyti. Með nokkurri einföldun má segja að við Íslendingar séum ung þjóð, það er stutt síðan við tókum að fullu og öllu eigin mál í eigin hendur. Við keppum við þjóðir sem voru stórveldi fyrir nokkur hundruð árum. Sumar högnuðust mjög á síðustu öld, t.d. á öllum styrjöldunum. Nefni ég Svíþjóð sem dæmi. Það var sama hvort það var fyrri eða seinni heimsstyrjöld eða kalda stríðið. Það er uppsafnaður auður í ýmsum löndum sem kom til af ýmsum ástæðum, m.a. út af nýlendustefnu þessara ríkja á meðan við Íslendingar höfum í um 60 ár verið með okkar mál að fullu í okkar höndum. Á þessum tíma hefur þurft að byggja allar undirstöður og innviði, hvort sem það eru samgöngur, húsnæði eða annað slíkt. Okkur hefur tekist býsna vel upp.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst ömurlegt að hlusta á eilífa minnimáttarkennd þessarar ríkisstjórnar fyrir útlendingum. Þetta er ekkert annað en minnimáttarkennd. Í hvert skipti sem hingað kemur útlendingur er honum hampað eins og að þar sé um algóðan guð að ræða. Þau sem eru til vinstri í pólitík, hvort sem þau starfa á fjölmiðlum eða í stjórnmálum, bugta sig og beygja og leggja út af öllum orðum þessara einstaklinga eins og um heilagan sannleika væri að ræða sem við þyrftum með einhverjum hætti að fara eftir. Þegar menn mættu útlendingum sem gættu svo sannarlega ekki hagsmuna Íslendinga heldur allt annarra hagsmuna í Icesave-samningunum sýndi sig þetta viðhorf. Þá bognuðu menn og beygðu sig fyrir erlendu valdi í tómri og klárri minnimáttarkennd sem mun skaða hagsmuni Íslendinga til langs tíma.

Skoðum markmiðin með þessu frumvarpi og þessum lagabreytingum. Ef við erum að færa okkur til þessa svokallaða norræna velferðarkerfis, hver bað þá um ósveigjanlegri vinnumarkað? Það er ekki nokkur vafi að Íslendingar eru með sveigjanlegri vinnumarkað en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Hvenær kom fram sá stjórnmálamaður eða það stjórnmálaafl sem sagði: Nú ætlum við að minnka sveigjanleikann í íslensku samfélagi og á íslenskum vinnumarkaði og við lofum því að ef við komumst að munum við gera hann ósveigjanlegri og erfiðari þannig að við verðum í sömu vandamálum og þær þjóðir sem eru annars staðar í Evrópu, t.d. Norðurlandaþjóðirnar?

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir þessu kosningaloforði. Ég man heldur ekki eftir kosningaloforðinu sem vinstri flokkarnir efna núna sem hljómar væntanlega einhvern veginn svona: Nú ætlum við að flækja skattkerfið. (Gripið fram í: Lofum því.) Við lofum því að flækja skattkerfið. Við lofum því að launamaðurinn muni verða í verulegum erfiðleikum með að átta sig á því hvað hann á að greiða mikið í skatta.

Ég man ekki eftir þessu loforði, virðulegi forseti. Var þetta í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna? Ég man ekki eftir loforðinu: Við ætlum að koma á eftirágreiðslu skatta. Nú skulum við aftur fara til fortíðar. Ég man ekki eftir þessum ræðum hjá Vinstri grænum eða Samfylkingunni. Ég man ekki eftir ræðunum sem hefðu átt að hljóma svo: Munið þið þann tíma þegar þið voruð í tómum vandræðum vegna þess að þið gátuð lent í verulegum fjárhagserfiðleikum, sérstaklega ungt fólk sem er að byrja sína vinnu, sérstaklega það allra yngsta sem áttaði sig ekki á því að það ætti eftir að greiða mikið af sköttum eftir á? Við ætlum að koma því aftur á. Það er það sem við skulum gera. Við skulum sjá til þess að þúsundir manna, sérstaklega þeir sem yngri eru, verði í verulegum vandræðum vegna þess að þeir nái hugsanlega inn miklum tekjum og ári eftir, þegar þeir eru með lægri tekjur, fái þeir reikninginn fyrir sköttunum sem þeir höfðu af háu tekjunum. Ég man ekki eftir þessu loforði.

Virðulegi forseti. Það er það sem þetta fólk er að gera núna og hvort sem fólk vill horfast í augu við þá staðreynd eða ekki var ástandið þannig að þegar sérstaklega þeir sem yngri eru — og ég veit þetta vel — stigu sín fyrstu skref á vinnumarkaði áttuðu þeir sig yfirleitt ekki á því að þeir ættu eftir að greiða skatta. Þeir vöruðu sig ekki og eyddu um efni fram. Sannarlega má segja að þeir hefðu átt að hugsa fyrir þessu, alveg rétt, en sérstaklega vegna þess að skattkerfið var flókið — eins og við erum að gera það aftur núna — áttaði þetta fólk sig ekki á því. Það eru mýmörg dæmi, tugþúsundir dæma, þar sem ungt fólk lenti í gríðarlegum erfiðleikum út af þessu. Og nú, virðulegur forseti, eftir að við höfum ekki séð þetta vandamál í áratugi kemur vinstri stjórnin í nafni norræns velferðarkerfis og ætlar svo sannarlega að koma þúsundum, ef ekki tugþúsundum, manna aftur í vandræði.

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir þessu loforði. Kannski hv. þm. Magnús Orri Schram geti upplýst okkar um hvenær þetta loforð var gefið.

Ég man heldur ekki eftir loforðinu um að aftur eigi að fara af stað með jaðarskattana. Ég man eftir því þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hv. þingmenn Vinstri grænna fóru sem frambjóðendur um allt og sögðu: Við viljum lækka jaðarskattana, það er markmið okkar. Ég held að það hafi verið í kosningabaráttunni 2003. Þá stóð upp úr hverjum einasta hv. þingmanni Samfylkingarinnar sem þá var í kosningabaráttu að lækka ætti jaðarskattana, þeir væru óréttlátir, vinnuletjandi og kæmu í veg fyrir verðmætasköpun, að það væri engin skynsemi í þeim. Ég man ekki eftir neinum stjórnmálamanni, engum, ekki einum einasta flokki, sem sagði: Við skulum hafa jaðarskattana. Það hefur svo tekjujafnandi áhrif. Það er svo svakalega gott. Þetta er svo í anda norræna velferðarkerfisins.

Ég man ekki eftir því, virðulegur forseti, og ég fullyrði að það var aldrei sagt. Það var góð samstaða um það, virðulegi forseti, hjá öllum flokkum að einfalda þetta, koma í veg fyrir þessi gríðarlegu jaðaráhrif. Hvað erum við að gera núna? Jaðarskattarnir komu aftur. Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, hver lofaði kjósendum þeim. Hvar kemur þetta fram í málflutningi eða kosningayfirlýsingum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna? (PHB: Við erum orðnir gleymnir, munum það ekki.) Hv. þm. Pétur Blöndal kallar að við séum orðnir gleymnir og að við munum það ekki. Ég held að við séum ekki gleymnir, við hv. þm. Pétur Blöndal. Ég held að við munum umræðu um skattamál mjög vel og við munum að þetta hefur ekki komið fram. Ég held að menn átti sig ekki á því hvað þetta er gríðarlega alvarlegt en við munum fá að finna fyrir þessu. Og það er alveg sama þó að spunameistararnir ryðji út úr sér: Nú erum við að fá norrænt velferðarkerfi. Það verður alveg jafnvont að fá flókið skattkerfi, það verður alveg jafnvont að fá jaðarskattana, það verður alveg jafnvont að fá eftirágreiðslu skatta, það verður alveg jafnvont þegar fólk áttar sig á því að það er misjafnt eftir hjónum og sambúðarfólki þó að það sé með upp á krónu nákvæmlega sömu tölu samanlagt í tekjur, önnur fjölskyldan mun greiða meira en hin. Það verður alveg jafnvont þó að spunameistararnir spinni eins mikið og þeir mögulega geta.

Virðulegi forseti. Hver lofaði eignarsköttum? Ég tók þátt í síðustu kosningabaráttu. Ég fylgdist nokkuð vel með henni. Hver lofaði eignarsköttum? Kannski hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Ég spurði einn hv. þingmann hvort það hefði verið í stefnuskránni. Nei, það var ekki í stefnuskránni, ekki frekar en fjölþrepa- eða flækjustigið eða jaðarskattarnir. Er kannski svo langt um liðið frá kosningum, virðulegi forseti? Nei, það er ekki. Það eru nokkrir mánuðir liðnir. Kannski áttuðu þeir sig ekki á stöðunni. Nei, virðulegi forseti, það er ekki það, samfylkingarmenn eru búnir að vera í stjórn frá 2007 og með VG síðan 1. febrúar sl.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða hrein og klár svik. Þessir flokkar svíkja vitandi vits kjósendur sína og vitandi vits eru þeir á miklum hlaupum við að eyðileggja skattkerfið eins og við þekkjum það. Það er enginn vafi að launþegar þessa lands, yngri og eldri, munu virkilega fá að finna fyrir því, kannski sérstaklega þeir sem yngstir eru og eru að fóta sig á vinnumarkaði í fyrsta skipti.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er skemmdarverk.