144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:56]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar fram kemur í frumvarpinu að nefnd sé að störfum við að meta til hvaða stjórnsýslunefnda þetta skuli ná þá getur hv. þingmaður varla vænst þess að ég fari að kveða upp úr um það hérna. Til hvers væri þá starf nefndarinnar, sú faglega vinna sem er í gangi við að meta þetta, ef ráðherrar ættu að mæta hér og koma með tilkynningu um hver niðurstaðan ætti að vera varðandi þær (Gripið fram í.) nefndir?

Hvað varðar hins vegar staðsetningu stofnana þá held ég, virðulegur forseti, að það væri afskaplega ankannalegt að fara að binda það í lög hvar stofnanir eigi að vera. Við erum alltaf að reyna að þróa stjórnsýsluna og gera hana betur í stakk búna til að þjónusta almenning í landinu en það þýðir þá líka að við verðum að vera í takt við tímann. (Gripið fram í.) Við verðum að gefa opinberum starfsmönnum tækifæri til að færa sig á milli stofnana og við verðum að hafa ákveðið svigrúm fyrir stjórnendur stofnana til (Forseti hringir.) að haga starfsemi þeirra á þann hátt að þær gagnist borgurum landsins sem best.