146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég hafði í gær samband við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana í landinu til að fá viðbrögð þeirra við þeirri fjármálaáætlun sem við stöndum frammi fyrir. Ég myndi vilja heyra frá hæstv. forsætisráðherra sem er í raun verkstjóri — er það ekki rétt? — yfir ríkisstjórninni. Þannig hefur því verið lýst fyrir mér af öðrum forsætisráðherra og starfsmönnum stjórnar, ég spyr hvort það sé ekki réttur skilningur. Hvers konar verkstjóri er hann þá? Hvar liggur ábyrgðarsvið hans? Finnst honum hann ábyrgur fyrir því að stjórnarsáttmálanum sé framfylgt? Mun hann beita sér í því?

Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta, um heilbrigðismál:

„Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar.“

Í ofanálag er talað um að heilbrigðisþjónustan sé forgangsmál.

Þá er spurningin varðandi verkstjórnina á þessu öllu saman og þær forsendur sem liggja til grundvallar þessari fjármálaáætlun. Þeir forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sem ég talaði við hafa áhyggjur af þessum forsendum, að þær séu hreinlega ekki réttar. Þetta hefur verið gert í tiltölulega miklum flýti. Við vitum það. En það hefur verið bent á að á síðu 81, þar sem samanburður við Norðurlöndin í opinberum útgjöldum kemur fram, er talað um að opinberu útgjöldin á Íslandi í sjö málaflokkum séu 6,9% af vergri landsframleiðslu, eða verðmætasköpun í samfélaginu, og svo er Svíþjóð lægra. Ísland með 7,4 en Svíþjóð 6,9. Þetta stangast á við þær tölur, það er sagt að þetta sé frá OECD, sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana hafa sent mér frá OECD á sama tímabili. Þarna ertu bara kominn með grundvallarforsendubrest ef þessar upplýsingar eru ekki réttar. Ég kalla eftir þessum upplýsingum, bæði frá fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Það er mjög alvarlegt ef verið er að miða við þessar forsendur.

Og svo eitt í lokin: Hvernig gæti forsætisráðherra skýrt það og brugðist við því að talað er um að opinber útgjöld í landinu séu hlutfallslega hærri en á hinum Norðurlöndunum nema í heilbrigðismálum — hvers vegna er það?