146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:40]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Aðeins um nefndina. Ástæða þess að markmiðið er á þennan hátt er að þetta er ný nefnd. Við þekkjum ekki hvernig mál munu koma inn á borð nefndarinnar. Það er mikilvægt og gott mál að þessi nefnd skuli vera komin af stað. Þetta er markmið miðað við að hér er um að ræða nýja nefnd og menn sjá ekki fyrir hvers konar mál munu koma þangað inn. Þess vegna er markmiðið svona.

Varðandi það hvort tveir saksóknarar séu nóg er mat manna að þetta sé nóg til að byrja með. Þetta er viðbót við það sem nú er.

Varðandi nánari tölur og ítarlegri greiningu er þær tölur og greiningar að finna í löggæsluáætlun. Hún mun liggja fyrir og koma inn í þingið á næstu misserum. Það er dómsmálaráðherra að meta hvenær sú áætlun kemur svo að ég get ekki komið með nákvæma dagsetningu á því. En það skiptir máli að þessar áætlanir allar eru ákveðin bylting í kerfinu og mikið framfaraskref þegar þetta mun allt liggja fyrir. Það mun þá tala vel saman við fjármálaáætlun og sýna á spilin til lengri tíma.