151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun.

Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Undanfarin ár hefur staðið yfir vinna við að yfirfara lagaumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar, eins og rætt var í framsögu um frumvarp hér áðan, með það að markmiði að uppfæra, einfalda og skýra lög og reglur þannig að stofnunin geti mætt væntingum samfélagsins og þörfum í heimi fjarskipta- og upplýsingatækni. Í því skyni hefur verið litið vítt yfir sviðið og farið ítarlega yfir gömul og ný verkefni stofnunarinnar, skörun við tengd svið og skoðuð tækifæri til úrbóta.

Meðal nýlegra breytinga á lagaumhverfi stofnunarinnar má nefna lög um póstþjónustu sem samþykkt voru árið 2019, frumvarp til nýrra laga um fjarskipti sem eru í þinglegri meðferð sem og frumvarp til nýrra laga um íslensk landshöfuðlén sem einnig er í þinglegri meðferð, en hvort tveggja mun hafa áhrif á starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá ber sérstaklega að nefna frumvarp til nýrra heildarlaga um Póst- og fjarskiptastofnun sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi og ég fór yfir hér í ræðu í öðru máli fyrr í dag. Þar er gert ráð fyrir að lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, falli brott, að Póst- og fjarskiptastofnun verði að Fjarskiptastofu og verkefni hennar verði framvegis eingöngu á sviði fjarskipta.

Virðulegi forseti. Ljóst er að póstmál hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár og almennum bréfasendingum hefur fækkað umtalsvert. Breytt samskiptatækni og samskiptamátar hafa fært upplýsingagjöf í auknum mæli frá prentmiðlum yfir í stafræna miðla. Tölvupóstur, samfélagsmiðlar o.fl. hafa fyrir löngu leyst af hólmi hefðbundin prentuð bréf. Þá hafa bætt fjarskipti og samgöngur á undanförnum árum breytt eðli og umfangi póstþjónustu hér á landi. Með tilkomu stafrænna samskiptalausna gegnir póstþjónusta því ekki sama hlutverki og áður. Eigi að síður gegnir póstþjónusta enn mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulíf, og er í lykilhlutverki í vefverslun. Það er því mitt mat að til framtíðar litið sé það hlutverk ríkisins að tryggja að allir landsmenn njóti póstþjónustu. Tækifæri eru þó fyrir hendi til að einfalda hlutverk ríkisins í þessum málum en mikilvægt er að gæta að jafnræði landsmanna við slíka einföldun. Í því sambandi þarf sérstaklega að huga að ólíkum aðstæðum og hagsmunum byggðarlaganna vítt og breitt um landið og gæta að því að horft sé til heildarhagsmuna alls landsins þegar kemur að stuðningi ríkisins á þessu sviði.

Sú vinna sem fram hefur farið við uppfærslu á lögum og verkefnum Póst- og fjarskiptastofnunar leiddi m.a. til þess að farið var að horfa til fýsileika þess að færa eftirlit með lögum um póstþjónustu frá stofnuninni til Byggðastofnunar, m.a. að danskri fyrirmynd. Meginhlutverk Byggðastofnunar samkvæmt lögum um stofnunina, nr. 106/1999, er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Innan stofnunarinnar starfar sérstakt þróunarsvið sem ber að fylgjast með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum og gera eða láta gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Hafa rannsóknir þróunarsviðsins vakið athygli fyrir vandaða og mikilvæga vinnu og innan stofnunarinnar er að finna öflugt og sérhæft starfsfólk á sviði byggðamála og rannsókna. Mæla því ýmis rök með því að Byggðastofnun taki að sér verkefni póstmála á þessu stigi svo að stofnunin geti unnið áfram með ráðuneytinu við að tryggja að póstþjónusta verði hagkvæm, skilvirk og áreiðanleg um land allt og til og frá landinu og jafnræði landsmanna til að njóta alþjónustu póstsins verði tryggt.

Meginmarkmið þessa frumvarps er því að leggja til breytingar á lögum sem fela í sér að verkefni póstmála flytjist frá Póst- og fjarskiptastofnun yfir til Byggðastofnunar og að hlutverk, heimildir og skyldur stofnunarinnar verði þau sömu og Póst- og fjarskiptastofnun hafði fyrir tilfærsluna. Frumvarpið er byggt upp með þeim hætti að ákvæði sem kveða á um verkefni og skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eru færð efnislega óbreytt í lög um póstþjónustu og í lög um Byggðastofnun. Mun Byggðastofnun sinna sömu verkefnum, hafa sömu skyldur og sömu heimildir og Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú á sviði póstmála ef frumvarp þetta fær framgang.

Stofnaður hefur verið verkefnahópur með fulltrúum frá Póst- og fjarskiptastofnun og Byggðastofnun sem mun vinna að því að flutningur verkefnisins verði vandaður og að þess verði gætt að sú þekking og reynsla sem er innan Póst- og fjarskiptastofnunar í málaflokknum nýtist Byggðastofnun áfram meðan á tilfærslunni stendur.

Virðulegi forseti. Ég tel að þær lagabreytingar sem hér hafa verið kynntar séu liður í því að einfalda hlutverk ríkisins á sviði póstmála án þess að jafnræði landsmanna til að njóta póstþjónustu verði stefnt í voða.

Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.