136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mjög víða um í ræðu sinni áðan. Ég tel ástæðu til að staldra örlítið við þann þátt málsins þar sem hann segir og fullyrðir úr ræðustóli að það fjárlagafrumvarp sem liggur fyrir sé samið af starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er langur vegur frá að svo sé. Þetta er samstarfsáætlun sem er í gildi milli íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um með hvaða hætti á að taka og vinna á þeim vanda sem við blasir. Þar hafa menn sett sér ákveðin markmið en það er okkar Íslendinga að útfæra með hvaða hætti við ætlum að nálgast verkefnið.

Ég sá ekki annað en að í áliti minni hluta fjárlaganefndar, sem er ágætt á margan hátt, kæmi fram nokkur nálgun á fjármögnun á þörfum íslenska ríkisins metin á 1.700 milljónir á næsta ári. Það var enginn útreikningur annars staðar frá sem lá til grundvallar þeirri tölu. Þá útreikninga unnu menn hér sjálfir og gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir.

Ég kalla eftir því í andsvari mínu við ræðu hv. þingmanns að hann fylgi því eftir sem hann nefndi áðan varðandi mögulegar leiðir til að draga úr þeim sársauka sem fyrirsjáanlegur er við að laga íslenskt hagkerfi að þeim veruleika sem við blasir og staldra aðeins við þessar hugmyndir um hátekjuskattinn sem ég hef lýst mig alveg fylgjandi að skoða. Hann talaði um að það væri ágætt að horfa til þess að fólk sem hefði allgóðar tekjur á næsta ári legði meira af mörkum en aðrir. Ég kalla eftir hvaða hugmyndir hann hefur um það sem hann kallar allgóðar tekjur hjá fólki sem á þá að bera þennan svokallaða hátekjuskatt.