136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:36]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einu sinni var talað um víðfrægt skáld í Skagafirði, í kjördæmi hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, að hann hefði m.a. getað reiknað barn í konu. Það var Sölvi Helgason. Og þegar hv. þingmaður talar um að hvert þrep kosti þúsund kr. varðandi persónuafsláttinn þá gleymir hann því að það koma hlutir til baka. Þetta er ekki heildarútreikningur. Þetta þýðir að neysla eykst og þessir peningar koma að miklu leyti til baka.

En það er ekki höfuðatriðið. Það er mjög einfalt og ég verð að segja mjög ódýrt að koma upp í andsvar með þeim hætti sem hv. þm. Kristján Þ. Júlíusson gerir, rífa hlutina í sundur og segja: Annars vegar er þingmaðurinn að benda á þetta og hins vegar hitt. Ég var fyrst og fremst að benda á að fara þyrfti fram heildarendurskoðun á tekjum ríkisins og útgjöldum. Það var meginatriðið. Ég nefndi síðan ýmis atriði sem þyrfti að skoða. Ég benti á það, ég var ekki að leggja það til, að það væri spurning um hvort betur hentaði að hafa eitt virðisaukaskattsþrep heldur en það sem við erum með í dag. Það var spurningin um það hvort virðisaukaskattsskil yrðu betri með því að lækka virðisaukaskattinn og hafa eitt skattþrep, einfalda það og gera það ódýra. Þetta var hugmynd.

Varðandi það sem ég nefni að mörgu öðru leyti þá á það sama við. Aðalatriðið í mínum huga er þetta: Það á að stefna að því að draga úr umsvifum hins opinbera. Það á að miða við það að lækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum og ég tel mikilvægt að farið verði í þá vegferð og reynt að ná samstöðu stjórnmálaflokkanna um að vinna að því máli af alefli.