141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er gerð tillaga um að veita 400 millj. kr. á næsta ári til hönnunar og uppsetningar náttúrugripasýningar eða náttúrusýningar á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Með því getur langþráður draumur ræst. Reykjavík er eina höfuðborgin á norðurhvelinu og hér í löndunum í kringum okkur þar sem ekki er myndugt náttúrugripasafn.

Ég er ein þeirra sem telja að Perlan geti hentað gríðarlega vel fyrir sýningu af þessu tagi. Ég tel einnig ástæðu til að fagna sérstaklega að núna, svona löngu eftir að það var orðið tímabært að koma þessari sýningu upp, þá sjáum við fram á að það geti orðið, ef ekki strax á næsta ári þá í byrjun árs 2014. Ég vil óska landsmönnum öllum og sérstaklega skólaæskunni í þessu landi til hamingju með það að þetta muni nást.