145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það að vinnubrögðin eru slæleg og fólk er kannski heldur mikið að einbeita sér að því að ferðast en að sinna innanlandsuppbyggingunni. Ég þekki klúðrið og við eflaust öll. Sýndar voru myndir einmitt, af því að hv. þingmaður talaði um palla, göngustíga og þess háttar sem gætu verið misgóðir hvar sem þeir eru, þá dettur mér í hug nærsvæði mitt eins og við Mývatn þar sem byggður var ágætispallur, en svo upphófust deilur og það mátti ekki halda honum við, sem er náttúrlega vægast sagt ömurlegt. Það er því löngu orðið tímabært að taka fast á þessum málum. Mér finnst og ég tek undir með hv. þingmanni að það á auðvitað ekki að koma neinum á óvart að sá tími sem við erum að vinna alla svona vinnu er nær alltaf, og sérstaklega á hálendinu, í þjóðgörðunum okkar, á þeim stutta tíma sem sumarið er.

Þingmaðurinn kom inn á annað þingmál sem hann hefur ekki fengið að flytja varðandi hæfisskilyrði leiðsögumanna. Ég hef velt fyrir mér af því að þegar maður ferðast erlendis er gjarnan innlendur leiðsögumaður með þeim erlenda. Nú er þetta auðvitað ekki — nú man ég ekki orðið yfir það, starfið er ekki lögvarið eða hvað það heitir, og ég þekki það svo sem ekki hvernig það er erlendis eða hvort þetta eru venjur eða reglur eða eitthvað sem verður þess valdandi, alla vega mjög víða, auðvitað ekki alls staðar, en mjög víða er það þannig að innlendur leiðsögumaður er með þeim íslenska getum við sagt í okkar tilfelli. Ég spyr hv. þingmann hvort hann viti eitthvað meira um það eða hvort hann hafi haft það í huga þegar hann var að búa til sitt mál og hvort hann telji það yfir höfuð skynsamlegt að gera það, eða hvort það sé óþarfi, það sé bara nægjanlegt að þeir þurfi að sitja námskeið, þessir erlendu, til að kynna sér málin.