146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er kannski undir áhrifum af því að á fimmtudaginn síðasta, sumardaginn fyrsta, opnaði Veröld, hús Vigdísar. Mig langar því að beina sjónum sérstaklega að tungumálanámi. Opnun Veraldar setti af stað mikla umræðu um tungumálanám. Ég heyrði t.d. í Samfélaginu á Rás 1 Önnu Sigríði Þráinsdóttur málfarsráðunaut benda á að á árabilinu 2007–2014 hafi framhaldsskólanemum á málabraut fækkað um helming. Þar var líka Petrína Rós Karlsdóttir, formaður Félags tungumálakennara, sem benti á að undanfarin misseri hafi málabrautir framhaldsskóla hreinlega verið að hverfa, það væru væntanlega bara þrír slíkir sem enn héldu úti málabraut.

Þetta skiptir máli vegna þess að skólakerfið á að búa nemendur undir þátttöku í heimi sem er síbreytilegur og eitt af því sem er að breytast núna er að hann er að verða sífellt alþjóðlegri. Ef við búum ekki vel að tungumálanámi á öllum skólastigum þannig að við getum menntað tungumálakennara framtíðarinnar erum við ekki að búa þetta unga fólk undir lífið sem það mun taka við. Þar að auki skiptir þetta máli fyrir íslenskuna þar sem faglegt starf í kringum erlend tungumál á háskólastigi skilar sér inn í íslenskuna, íslenskunám á háskólastigi.

Ég velti fyrir mér hvort sú þróun sem lýst var hjá framhaldsskólunum, að málabrautin sé að hverfa, sé enn eitt dæmið um það að þegar framhaldsskólinn var styttur úr fjórum árum í þrjú, einhliða, sé dreginn þróttur úr ýmsum hlutum námsins, hvort máladeildirnar séu eitt af fórnarlömbum styttingarinnar.

Á síðustu árum (Forseti hringir.) höfum við séð átak til að fá fólk í raungreinanám. Nú spyr ég hvort kominn sé tími á átak fyrir tungumálanám, ekki síður en kennaranám sem hér er rætt.