154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

áhrif ófriðar á þróunarsamvinnu Íslands.

523. mál
[15:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu. Það eru nefnilega stríð eða átök í gangi í fjölda landa og fæstum þeirra heyrum við af. Við heyrum endalaust um Úkraínu og Miðausturlönd en sannleikurinn er sá að það eru komin 11 ár síðan stríð braust út í Sýrlandi sem hefur ekki stoppað. Það eru búin að vera átök í Súdan sem við heyrum lítið af og bara í Darfúr-héraði einu dóu á síðasta ári 15.000 manns í þeim átökum. Þetta eru átök sem við þurfum að hugsa um.

Það er líka mikilvægt að við áttum okkur á því, af því að ég veit að hæstv. ráðherra hefur miklar áhyggjur af kostnaði við hælisleitendur, að þessi átök skapa flótta fólks út um allan heim. Skrifstofustjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, (Forseti hringir.) sem hitti utanríkismálanefnd fyrir rúmri viku síðan, nefndi það einmitt að þeirra vinna væri að aukast til muna.