154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

ferðaþjónustustefna.

561. mál
[17:06]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir að vekja máls á þessu og hæstv. ráðherra fyrir hennar svör. Það verður spennandi að sjá niðurstöður þeirrar vinnu sem hæstv. ráðherra er að boða hér. Mér finnst þó vanta inn í þessa vinnu ákveðna breytu sem formaður Samfylkingarinnar tíundaði ágætlega í viðtali í morgun á Sprengisandi, ef ég man rétt, þar sem hún sagði: Hér eru sköpuð störf sem við höfum ekki áhuga á að sinna. Það sem ég er þar að tala um er að auðvitað er ferðaþjónustan frábær og hún hefur lyft grettistaki í atvinnumálum þjóðarinnar en þann fjölda sem við þurfum til þess að vinna í þessari atvinnugrein þurfum við að miklu leyti að flytja inn. Þetta tengist því innflytjendastefnu landsins sem er ekki til og er í rauninni hápólitískt atvinnustefnumál sem við þurfum að ræða sem slíkt.