133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[15:46]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að það mál sem við hér ræðum, um Vatnajökulsþjóðgarð, skuli vera komið á dagskrá þingsins og tel það eitt af mikilvægari málum sem við höfum tekið fyrir á þinginu fram til þessa. En það verður að segjast eins og er að mál umhverfisnefndar hafa ekki flækst fyrir okkur undanfarna mánuði, það hafa engin stjórnarþingmál komið fram í umhverfismálunum í haust, eitt þingmannamál er á dagskrá og engir fundir. En á þessu eru skýringar hvað varðar undanfarnar vikur og því nota ég það tækifæri sem nú gefst til að senda formanni nefndarinnar kveðjur á sjúkrabeð en fjarvistir hans hafa ekki komið að sök fyrir nefndina auk þess sem varaformaður hefði að sjálfsögðu getað tekið til við störfin ef við hefðum haft mál að vinna að eða ef áhugi hefði verið fyrir að vinna með þingmannamálin. Ég hlýt að geta þessa í upphafi fyrsta máls á sviði umhverfismála.

Þetta mál, Vatnajökulsþjóðgarður, er stórt mál og það er mikill áhugi fyrir því hjá okkur í Samfylkingunni að Vatnajökulsþjóðgarður verði að veruleika og ég er líka sannfærð um að almennur áhugi er í landinu fyrir slíkum þjóðgarði. Það er afar brýnt að vel takist til um skipan mála því þjóðgarðurinn á, eins og nafnið vísar til, að verða þjóðargarðurinn, þjóðarinnar allrar, ekki bara svæðisins í kringum Vatnajökul. Þetta hlýtur að vera útgangspunkturinn við alla málsmeðferð og umfjöllun okkar í nefndinni.

Hæstv. umhverfisráðherra gat um aðdraganda þess að þetta frumvarp er komið fram og m.a. þeirrar tillögu um þjóðgarð norðan og norðaustan Vatnajökuls sem Samfylkingin flutti 2002–2003 og nefndina sem í kjölfarið vann að þeim málum og var einhuga hvað það svæði varðaði. Það hefur því legið fyrir að stofna þjóðgarð bæði í Skaftafelli og fyrir norðan og norðaustan og að bæta við Skaftafellsjökulinn Vatnajökulsbungunni og hér er þetta komið í stærra form. Þetta er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, og ég hlýt að vísa hér í upphaf greinargerðar Samfylkingarinnar með sínu þingmáli.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Jökullinn býr yfir öllu. Hvítur, tær: og þegar nær dregur svo skelfandi með gný skriðjöklanna sem sækja fram sandi sorfnir í sárið, og seilast að söndunum svörtu og smáum vinjum eyðimerkurinnar sem nær með gargandi skúmi fram á brimlostna strönd.“ Þennan texta á Thor Vilhjálmsson.

Það var skoðun flutningsmanna þess þingmáls að það væri mjög nauðsynlegt að stokka upp þá stefnu sem gilt hefur um þjóðgarða fram að þessu, t.d. það að hefðbundinn landbúnaður geti farið saman við rekstur þjóðgarða. Samfylkingin lagði til að farið yrði öðruvísi að nú þegar yrði farið að skoða þjóðgarðinn í kringum Vatnajökul og það er mjög vel greint frá þessu í greinargerð með þingsályktunartillögu okkar. Ég get þessa sérstaklega vegna þeirra athugasemda sem ég mun svo gera við það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Í greinargerð með tillögu okkar segir líka að víða á jöðrum hins fyrirhugaða þjóðgarðs sé að finna mikinn áhuga heimamanna á að heimalönd, eða partur af þeim, verði hluti þjóðgarðsins. Áhuginn stafar af umhyggju fyrir náttúrunni en ekki síður hinu að heimamenn skynja æ betur þau sóknarfæri í atvinnulífi sem gætu siglt í kjölfar stofnunar þjóðgarðs. Sunnan Vatnajökuls, svo sem á Höfn í Hornafirði, er t.d. vaxandi áhugi á að þjóðgarðurinn nái suður af Lónsöræfum og í sjó fram og teygi sig svo með strandlengjunni til vesturs. Vestan jökuls, á Kirkjubæjarklaustri og í grennd, er sömuleiðis áhugi á að þjóðgarðurinn nái með vesturjaðri jökulsins nægilega langt til suðurs til að Lakagígar, sem þegar eru friðland og eitt jarðfræðilega merkasta og fegursta svæði á landinu, verði hluti af þjóðgarðinum.

Við í Samfylkingunni höfum mjög oft rætt hver ættu að vera ytri mörk þjóðgarðs af þessum toga og þess vegna er mjög athyglisvert hvaða svæði verða ekki tekin með í Vatnajökulsþjóðgarð að þessu sinni.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir og sem við höfum beðið eftir og sem ég fagna að er fram komið vekur margar spurningar. Stærsta álitamálið er reglugerðarákvæðið. Heimild er gefin til að friðlýsa Vatnajökul og helstu áhrifasvæði með reglugerð. En allar reglugerðir eiga að hafa lagastoð, engin reglugerð má ganga lengra en lög kveða á um. Við fyrstu sýn virðist vandasamt að setja reglugerð um friðlýsingu. Þar hljóta að koma mörg álitamál upp sem venjulega falla undir lagasetningu.

Þessum þjóðgarði virðist jafnframt vera kippt úr sambandi við þær reglur sem gilda samkvæmt lögum. Við í Samfylkingunni höfum miklar efasemdir um að þjóðgarðsmörk verði sett með reglugerð. Hvaða svæði erum við að tala um og hvers vegna er það undanskilið sem ekki virðist eiga að vera með í þjóðgarðinum samkvæmt því sem hér er tekið fram?

Það á að leita samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar fyrir friðlýsingu landsvæðis í sveitarfélaginu og það á að gera samning við landeigendur um friðlýsingu lands í einkaeign. Þá vaknar spurningin: Um hvað á að semja og hvenær verður það hægt? Í dag er ekki ljóst hvað er þjóðlenda og hvað er einkaeign. Á stórum svæðum í umhverfi jökulsins og á því svæði þar sem fyrirhugað er að vera með þjóðgarð er þessum málum ekki enn þá ráðið til lykta og spurning vaknar hvenær verður hægt að ráða þeim til lykta og hvað gerist með þau sem eru enn þá óleyst.

Svo er stóra spurningin: Hvaða náttúrusvæði eiga og munu verða innan borðs? Ég nefni Langasjó, hrífandi náttúrufyrirbrigði vestan Vatnajökuls sem lætur engan ósnortinn sem þangað kemur. Og hvað með Jökulsá á Fjöllum? Vatnasviðið er ekki allt innan þjóðgarðs eins og t.d. var lögð mikil áhersla á í tillögu Samfylkingarinnar varðandi svæðið norðan Vatnajökuls. Þá vaknar auðvitað spurningin um hvort verið sé að halda virkjunarmöguleikum opnum. Það er útilokað annað en að ræða þessi mál algjörlega opið um leið og við förum yfir það hvernig á að halda á málum varðandi þennan þjóðgarð.

Í greinargerð með frumvarpinu eru talin upp svæði sem hugsanlega verða viðbót við Vatnajökulsþjóðgarð síðar. Á norðursvæðinu eru þetta Ódáðahraun og Herðubreiðarfjöll, efsti hluti Suðurár og Suðurárbotnar. Á austursvæði: Brúaröræfi og svæði á Jökuldalsheiði. Á suðursvæði: Fjalllendi við Hoffellsjökul og Jökulsárlón og á vestursvæði: Nær öll jaðarsvæði Vatnajökuls, frá Núpsstaðaskógum til Veiðivatnasvæðis, eftir atvikum mismunandi langt frá jökli. Það kemur fram í greinargerðinni að viðræður eru á frumstigi við eigendur þar sem eigendur landsvæða eiga í hlut.

Þarna eru nefnd svæði sem skiptir mjög, mjög miklu máli að vernda til framtíðar án þess að það sé komið að því að þau séu innlimuð eða tekin undir það svæði sem fyrirhugað er að lögfesta með þessu frumvarpi að verði Vatnajökulsþjóðgarður að þessu sinni, þ.e. þó með þeim fyrirvara að það er reglugerð sem á að ákveða það en miða við hvernig málið er fram sett.

Þegar maður fer að skoða frumvarpið ítarlega er alveg ljóst að það er aftengt bæði náttúruverndarlögum og Umhverfisstofnuninni og ég spyr: Hvers vegna? Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða í nefndinni. Og er þetta nauðsynlegt? Eigum við ekki og þurfum við ekki að vera með meginlög um náttúruvernd sem allt annað tekur mið af? Með þessum þjóðgarði er í raun og veru verið að fara inn á nýja braut og mér finnst mjög mikilvægt bæði að fá skýringu á því af hverju þessi leið er farin og að umhverfisnefndin skoði þetta sérstaklega.

Svo virðist líka sem yfirstjórn þjóðgarðsins eigi að koma í stað Umhverfisstofnunar hvað varðar þau verkefni sem Umhverfisstofnun hefur haft gagnvart öðrum svæðum en þau verða nú í raun og veru tekin yfir af yfirstjórn þjóðgarðsins. Það þýðir að breyta þarf náttúruverndarlögunum hvað þessi ákvæði varðar, bæði hvað varðar náttúruminjar og stofnun þjóðgarða vegna þess að lögin um Vatnajökulsþjóðgarð munu í raun ganga þeim lögum framar, það verður þá að taka það fram og gera breytingar á þeim lögum.

Við í Samfylkingunni sem höfum verið að skoða þetta skiljum ekki alveg hvað liggur að baki slíkri aftengingu Vatnajökulsþjóðgarðs við náttúruverndarlög og okkur finnst að 38. gr. náttúruverndarlaga sé rifin í sundur og að sumt muni gilda og annað ekki í þjóðgarðinum miðað við þetta frumvarp. Okkur sýnist líka að það verði að skoða hvernig frumvarpið tengist lögum um þjóðlendur. Það eru sérstök lög um þjóðlendur og við vitum öll að víða eru mikil málaferli í gangi til þess að leiða það til lykta hvað eru einkalönd og hvað eru þjóðlendur. Í lögum um þjóðlendur er ákvæði um að það eigi að nýta það fjármagn sem fellur til í þjóðlendum innan þjóðlendnanna sjálfra. Hvað þetta frumvarp varðar og það svæði sem það fjallar um verður sumt þjóðlendur og annað ekki og það er ekki endilega víst að það henti að láta fjármagn falla til innan þeirrar þjóðlendu sem er á viðkomandi stað á svæðinu. Þetta þarf líka að skoða og við sjáum ekki dæmi um að það hafi verið tekið fyrir.

Hér er um gífurlega víðfeðmt svæði að ræða eins og fram kom í ræðu hæstv. umhverfisráðherra og, eins og ég hef sagt, sumt þjóðlenda og annað einkaeign, og það er mjög mikilvægt að um leið og við setjum lög þá skoðum við hvernig fyrirkomulag framkvæmda leggst þvert á þau mörk.

Svo kemur að stjórnuninni og ég gat þess sérstaklega í inngangi að máli mínu að Samfylkingin vill eiga mjög gott samstarf við heimamenn á svæðinu og líka skoða það hvort þurfi að fara nýjar leiðir með að tengja það sem er hefðbundið og óhefðbundið í því sem er varið. En það er alveg ljóst að það þarf að skoða stjórnarfyrirkomulagið betur. Stjórnin er t.d. ekki staðsett miðað við að vera heimamannastjórn og að svæðið tekur til tveggja kjördæma. Þetta er meirihlutaheimamannastjórn, og miðað við eðli þjóðgarða þá brýtur hún svolítið í bága við þá. Þarna eru fjögur svæðisráð og það er meiri hluti heimamanna í hverju þeirra en tillagan felur líka í sér að það verði meiri hluti heimamanna í yfirstjórninni og við setjum spurningarmerki við það meðan við ekki höfum fengið skýringu á því hvers vegna er farið þannig fram með tillögu.

Þetta vekur athygli á því hvernig aðkoman eigi að vera hjá mesta þéttbýlissvæði landsins, suðvesturhorninu. Þeirri spurningu er ekki svarað í frumvarpinu og þetta er líka spurning sem við eigum að ræða opið og á hreinskilinn hátt.

Virðulegi forseti. Ég hef farið lauslega yfir meginatriði þess sem við í Samfylkingunni höfum verið að skoða. Félagar mínir í nefndinni, Mörður Árnason og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, munu koma hér og fara ítarlegar ofan í þessi mál, en mig langar í lokin að nefna sérstakt áhugamál mitt.

Ég hef ferðast mjög mikið um óbyggðir á Íslandi og finnst það það eftirsóknarverðasta sem hægt er að hugsa sér hvað varðar ferðamáta og frí. Hvergi er betra að eiga unaðsstundir en á fjöllum eða inni í óbyggðum. Ég fer líka stundum á jökla en í jöklaferðir mínar hef ég farið akandi. Ég átti þess kost að fara í ferð á Vatnajökul fyrir tveimur árum. Það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma, að aka upp á þennan víðfeðma jökul og dveljast þar og keyra hann allan í norður og keyra hann allan í suður og eiga þar næturgistingu undir bláhimni í unaðsveðri. Það er auðvitað alveg einstakt að eiga þess kost að upplifa þetta.

Mér finnst mikilvægt að áfram verði hægt að fara í slíkar ökuferðir inn á jökla, bílar eru eins og smádeplar í íshafinu og eftir þá fennir fljótt í slóðir. En jafnframt verður að taka alveg sérstaklega á því að allir sem eru í gönguferð, hvort sem það er á göngu eða skíðum, lendi ekki í því að bílar séu á þeirra slóðum. Það er grundvallaratriði, enda voru í þeirri ferð sem ég fór mjög ströng skilyrði um það hvert bílar mættu aka vegna þess að á sama tíma var mjög mikið fjölmenni að ganga á Hvannadalshnjúk og truflaði þar hvorugt annað, ef hægt er að orða það þannig.

Ég tek eftir því að í 15. gr. er ákvæði um akstur vélknúinna ökutækja utan vega í þjóðgarðinum. Þá vaknar spurningin: Á þetta líka við jökulinn sjálfan? Er verið að setja þarna inn ákvæði sem lokar á eitthvað sem gífurlegur fjöldi fólks lítur á sem eitthvað það eftirsóknarverðasta í ferðum á okkar einstaka landi, en það er möguleikinn að keyra á jöklum? Er þarna strax í upphafi verið að loka á að vélknúin ökutæki, vel útbúnir jeppar eða önnur ökutæki megi fara á jökul? Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram og ég mun leggja mikla áherslu á að við skoðum það í nefndinni. Ég er alveg sannfærð um að ef hugsunin er þannig á bak við ákvæði 15. gr. að þarna eigi að loka á eitthvað sem er orðin mikil hefð á Íslandi þá séum við að fara vill vega, það er mín skoðun.

En við erum vonandi öll sammála um að það er þýðingarmikið og sérstaklega ánægjulegt að Vatnajökulsþjóðgarður verði til. Þetta lagafrumvarp, eins og hefur komið fram, stofnar ekki þjóðgarðinn heldur þær reglugerðir sem verða settar og það er vandi þessa frumvarps, það er stór vandi þessa frumvarps. Við munum að sjálfsögðu ræða frumvarpið í umhverfisnefndinni og senda málið til umsagnar og fá fólk með sérfræðiþekkingu á fund nefndarinnar. Svo vil ég að lokum, þrátt fyrir þessar áleitnu spurningar sem ég hef sett fram, óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með að bera fram þetta mikilvæga frumvarp á Alþingi.