141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:52]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér á eftir atkvæði um enn eitt fjárlagafrumvarpið þar sem velferð er skorin niður fyrir vexti. Nú er svo komið að starfsfólk heilbrigðisstofnana, skóla og löggæslunnar getur ekki hlaupið hraðar. Norræna velferðarstjórnin gat fjármagnað velferðina eftir hrun með því að leggja vexti á aflandskrónur og með því að lækka verulega vaxtastig í landinu. Það tækifæri nýtti hún ekki heldur hélt fast við efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við höfum verið með heimsmet í háum vöxtum þrátt fyrir gjaldeyrishöft sem gáfu okkur einstakt tækifæri til að lækka vexti. Nettóvaxtakostnaður ríkisins á sl. fjórum árum er því 181 milljarður. Frú forseti. Afleiðingarnar eru aukin fátækt og misskipting í samfélaginu.