145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni málsins fyrir hans yfirferð. Það er alveg ljóst að svona mál eru eðli máls samkvæmt ekkert sérstaklega gagnsæ, þau eru lögð fram þar sem frumvarpið sjálft felur fyrst og fremst í sér viðbætur við lög þar sem ýmsar prósentutölur birtast og oft erfitt að kafa í gegnum það samt. Ég held þó að eftir yfirferð nefndarinnar geti ég fallist á samþykkt þessa frumvarps en ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Sá fyrirvari sem þar birtist lýtur að sömu atriðum og þeim sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi í ræðu sinni rétt áðan, þ.e. í hinni svokölluðu rúmmálsreglu. Hún var innleidd í lög 1972. Það frumvarp sem síðar varð að téðum lögum var á sínum tíma lagt fram með það fyrir augum að dreifa skattbyrðinni á réttlátari hátt en tíðkast hafði en fyrir gildistöku rúmmálsreglunnar miðaðist skattfrelsi einungis við eignarhaldstíma og jókst eftir því sem hann var lengri þar til fullu skattfrelsi var náð. En söluhagnaður, umfram 1.200 rúmmetra hjá hjónum eða 600 rúmmetra hjá einstaklingi, sem eru auðvitað allstórar eignir í íbúðarhúsnæði til eigin nota, var gerður skattskyldur, umfram þessa stærð.

Í frumvarpinu er þá lagt til að þessi söluhagnaður verði ekki skattskyldur þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Ég mun ekki styðja þá breytingu og að því lýtur fyrirvari minn, en að öðru leyti styð ég málið.