138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við byggjum upp þessa þrjá þjóðgarða sem hv. þingmaður nefndi hér áðan og sýndi fram á þá skiptingu sem er á milli þeirra varðandi fjármuni. Ég fagna því að aukið sé við fjármuni á Snæfellsnesi því að þar eru mikil áform uppi eins og annars staðar. Þetta er klárlega tækifæri fyrir ferðaþjónustu og aðra aðila og okkur sem Íslendinga að sýna fram á hversu fallega náttúru við eigum. Því fagna ég þessu verkefni þó að ég sitji hjá við atkvæðagreiðsluna, frú forseti, því að það er mjög mikilvægt að jafna þennan mun. Ég hvet fjárlaganefnd og þá sem koma að þessu fyrir næstu fjárlagagerð að horfa vandlega á þjóðgarðana í heild.