144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma upp í lok þessarar lotu og ræða við okkur og taka saman það sem rætt hefur verið, af því að það eru fjölmargir þættir sem við þurfum að fá svör við.

Eitt fannst mér ekki koma nægilega vel fram í ræðu hæstv. ráðherra og það er þetta með eftirlitið. Mér finnst sérkennilegt að fara af stað með mál sem byggist á því að eftirlit eigi að verða til þess að menn gæti sín á því að kaupa sér náttúrupassa ef menn eru ekki þeim mun samviskusamari. Fyrir fram er sagt: Já, það er nú samt ekki alveg útfært og við vitum ekki alveg nákvæmlega hvernig það verður en það verður ekkert flókið eða fer ekkert mjög harkalega af stað. Ég skil þetta svona. Hefur hæstv. ráðherra þá engar áhyggjur af því að ef við færum svoleiðis af stað skili gjaldið sér ekki? Mér finnst þetta eftirlitsmál þurfa að verða dálítið skýrara vegna þess að menn virðast ætla að nota það til þess að pressa á menn að kaupa sér passann.

Ég ætla ekkert að fara að diskútera við hæstv. ráðherra um gistináttagjaldið, ég held að við séum ósammála um það í sjálfu sér. Ég er samt ekki á því að gistináttagjaldið sé frábær lausn, alls ekki, það er engin niðurstaða í þessu frábær. Og það sem mér þykir kannski verst af öllu er það að ferðaþjónustan sjálf hafi ekki getað komið sér saman um það hver eigi að innheimta þetta gjald. Um það snýst málið að menn hafa ekki getað komið sér saman um það. Þess vegna er hæstv. ráðherra kominn í þá stöðu sem hún er í, að leggja fram þessa leið sem ég tel alls ekki þá bestu.

Mig langaði síðan að spyrja hæstv. ráðherra, ég hef örfáar sekúndur hér í lokin, út í það að mér finnst óskýrt hvaða staðir það eru sem falla undir frumvarpið. Mér finnst það ekki koma skýrt fram og heldur ekki í systurfrumvarpinu, sem er landsáætlunin, sem rætt verður hér á eftir þessu máli.