145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað getur RÚV ákveðið að nýta ekki þessar 450 milljónir til að kaupa efni annars staðar, en það er spurning hvort það hafi þá rétt á þessu skilyrta framlagi. En stjórnendur þar stýra þessu auðvitað. En hins vegar kom fram, af því að menn eru að tala um RÚV og vilja fara að tala um reksturinn, að við vitum að á síðasta kjörtímabili — ég er ekki búinn að fá neinar alvöruskýringar á því — fóru menn út í þennan Vodafone-leiðangur, ætluðu að fá 100 milljónir í auglýsingatekjur af einhverju sem heitir RÚV2 og ætluðu úti í einhverjar mjög sérkennilegar áætlanir. Ég ætla nú ekki að segja mönnum hvernig þeir eigi að reka Ríkisútvarpið, en ef ég væri að koma að því mundi ég byrja á að líta á það og þá fjárfestingu sem við erum að fara í annars staðar varðandi fjarskipti og skoða þann þáttinn.

Síðan hvað varðar heilbrigðismálin, það sem mér finnst vanta þegar menn ræða Landspítalann er að Landspítalinn er bráðasjúkrahús. Fólk fer þar inn á bráðadeild sem ætti ekki að gera það. Hvað þýðir það? Það þýðir gríðarlegan kostnað. Ef okkur tekst að ná árangri í heilsugæslunni þá mun því fólki fækka sem fer á Landspítalann. Á sama hátt er fólk inni á Landspítalanum sem á ekki að vera á Landspítalanum, það á að vera í öðrum úrræðum sem eru ódýrari og betri fyrir viðkomandi einstaklinga. Þannig að ef við erum að taka á og bæta í heilsugæsluna og bætum í fráflæðið að því gefnu að við náum þeim árangri sem lagt er upp með, í það minnsta erum við klárlega að setja fjármuni í það, þá léttum við á rekstri Landspítalans. Ef við erum með þetta jafn dapurt og það er í dag, þá erum við að gera hlutina eins dýra og mögulegt er. Þá geta staðhæfingar hv. þingmanns átt rétt á sér, en það væri eins óskynsamleg leið og möguleg væri.

Nú getum við haft allar skoðanir í stjórnmálum, en ég skil ekki af hverju menn vilja ekki að þjónustan sé þannig að hún sé við hæfi hvers og eins. Bráðaspítali er bráðaspítali og við eigum að sjá til þess að hann sé bestur sem (Forseti hringir.) bráðaspítali. Síðan þarf aðra allra handa þjónustu. Það verður að skoða þetta í samhengi.