152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Þú heldur það, frú forseti, að ég ætli að svara þessu tæknimáli. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Nei, en þetta er alveg rétt. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er búinn að færa umræðuna svolítið út fyrir þekkingarsvið þeirrar sem hér stendur en aftur komum við að þessu, að við þurfum að hafa þekkingu á þessum hlutum og þeir sem eru að taka ákvörðun eða ráðleggja stjórnvöldum, ekki síst í ljósi þess að stjórnvöld eru að fá þetta gríðarlega mikla vald í gegnum reglugerð, þurfa að vera aðilar sem eru til þess bærir að ráðleggja byggt á þekkingu og færni. Ég verð að segja að mér finnst það segja töluvert mikið að Póst- og fjarskiptastofnun áréttar í umsögn að byggja þurfi upp hjá stofnuninni þekkingu á þessu máli, það er ekki hægt að orða það skýrara. Þetta er lykilatriði. En mér finnst þetta mjög áhugavert, eins og hv. þingmanns er von og vísa, að koma með það tvist að það er ekki að halda þurfi úti kerfum sem hægt er að stunda njósnir með heldur þarf bókstaflega að hafa þau inni til þess að við getum stundað njósnir.