152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa prýðisgóða hraðlestrarræðu. Það var mikið efni sem reynt var að koma þarna fyrir á fimm mínútum. Það er tvennt sem mig langar til að ræða við hv. þingmann. Í fyrsta lagi er þetta mjög síðbúið andsvar því að ég náði ekki að koma í andsvar við fyrri ræðu hv. þingmanns, ég vona að hann fyrirgefi mér það, en þá ætlaði ég að spyrja hann út í áhrif þessara auknu reikiheimilda á farsímasamband á vegum og í dreifbýlinu öllu og hvernig hann metur áhrif þeirrar breytingar frumvarpsins. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál, sérstaklega fyrir landsbyggðina, og hef pirrað mig mjög á því að málið sé jafn seint fram komið og raunin er vegna þess að það hafi raunverulega dregið á langinn að fá þessa bættu stöðu fjarskipta á landsbyggðinni. Fjarskiptafyrirtækin bíða eftir því að þessar reglur séu innleiddar en er haldið í óvissu og það tefur. Hver mánuður sem málið dregst í meðförum ríkisstjórnarinnar er heill mánuður til viðbótar af óþarflega lélegu farsímasambandi á vegum landsins. Mig langaði að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þessa og mat hans á því.

Hins vegar vildi ég spyrja hv. þingmann um hagsmuni neytenda, þar sem mér fannst hann nefna undir lokin að það væri velkomið að spyrja hann út í það og skildi það sem svo að það hefði verið eitthvað undir lok ræðunnar sem ekki komst að.