154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Þetta er búin að vera afbragðsgóð umræða og venju fremur pólitísk. Ég ætlaði að koma inn á það sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson sagði hér undir lokin að ef við horfum bara á heilsugæsluna, könnun frá því sumarið 2022, þá virðast einkareknu stöðvarnar koma býsna vel út og raða sér í efstu sætin hvað ánægju viðskiptavina varðar. Það er búið að vera undarlegt, þykir mér, á köflum hérna í umræðunni hversu fastir sumir eru í að tala um að það sé verið að einkavæða heilbrigðiskerfið. Eru menn þá að segja að það sé enginn munur á einkarekstri og einkavæðingu? Þeir sem halda þessu fram verða að útskýra það. Það sem blasir við er að fyrir land og þjóð og þá sem kenna sér meins skiptir mestu máli að þjónusta sé aðgengileg, hún sé góð og fyrir skattgreiðendur um landið allt auðvitað að hún sé á verði sem kerfið, ef svo má segja, ræður við. Þá skiptir ekki öllu máli hvert rekstrarform þess apparats sem tekur á móti einstaklingunum er. Ég man nú ekki töluna en það er óhemjufjöldi viðvika sem er unninn á einkareknum stofum í hinum ýmsu geirum heilbrigðiskerfisins og ég held að það sé einfaldlega bara óraunhæft ef sósíalisminn, sem er hér á köflum mælt fyrir, að þetta verði allt saman ríkisrekið, verði lausn sem geti í nokkru samhengi gengið upp.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra ef hann á möguleika á hér í lokaræðu sinni að svara spurningu, en hann sagði í framsöguræðu sinn að aðgerðum hefði fækkað í útlöndum: Er staðan sú að það er enn verið að senda einhverja erlendis í liðskiptaaðgerðir?