131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:35]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum enn eina ferðina frumvarpið til laga um breyting á einkamálalögum og eins og hæstv. ráðherra gat um í andsvörum sínum er um það mál djúpstæður ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna.

Hv. þingmaður Ágúst Ólafur Ágústsson hefur farið yfir það með hvaða hætti sá ágreiningur kemur fram með því að fara yfir nefndarálit minni hluta allsherjarnefndar, en þar koma fram sjónarmið okkar í þessum efnum. Ég hef ekki neina ástæðu til að ítreka nein sérstök atriði í því sem hv. þingmaður Ágúst Ólafur Ágústsson fór yfir en lýsi einungis yfir því þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni að ég er sammála þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans.

Mér þykir það mjög miður, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmálaráðherra skuli sjá ástæðu til þess að reyna að sýna viðleitni sína í verki til að draga úr útgjöldum hins opinbera á þann hátt sem hann gerir í frumvarpinu. Meðal þess sem deilt er um í málinu er hversu mikla fjármuni sé um að ræða. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari sínu áðan að ágreiningurinn milli stjórnar og stjórnarandstöðu í málinu felist m.a. í því að stjórnarflokkarnir vilji sporna við útgjaldaaukningu ríkissjóðs á sama tíma og vinstri flokkarnir vilji auka útgjöld ríkisins. Þá skulum við líka skoða þær tölur sem um ræðir. Þær eru ekki óljósar því fram kemur í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jónínu Bjartmarz á þskj. frá 17. nóvember 2004 að kostnaðarskipting milli a- og b-liða laganna, 126. gr., sé ekki aðgengileg en samt megi með því að skoða heildartöluna auðvitað finna einhvers konar niðurstöðu eða svar við spurningunni.

Hæstv. ráðherra segir í svari sínu við fyrirspurn hv. þm. Jónínu Bjartmarz um þetta efni fyrr á þessu þingi að gjafsókn sé mjög sjaldan veitt á grundvelli b-liðarins. Hlutfallið árið 1998 hafi t.d. verið með þeim hætti að gjafsókn var í 131 tilfelli veitt á grundvelli a-liðarins það ár, fjórum sinnum á grundvelli b-liðar og tólf sinnum á grundvelli a- og b-liðar sameiginlega. Sambærilegar tölur segir ráðherra hafa verið fyrir árið 2002, að 226 sinnum hafi gjafsóknarnefnd mælt með gjafsókn á grundvelli a-liðarins, 22 sinnum á grundvelli b-liðarins sem deilt er um og 7 sinnum á grundvelli a- og b-liðar sameiginlega. Það má því ætla, segir hæstv. ráðherra orðrétt, með leyfi forseta, „að útgjöld vegna gjafsókna á grundvelli b-liðar nemi samkvæmt þessu um 5%–15% af heildarútgjöldum vegna gjafsókna á ári hverju.“

Hvað eru þessi 5%–15% há upphæð? Nefnilega 7,5–22,5 millj. eða með öðrum orðum eins og við höfum talað um, það má segja að þau mál sem heyra undir b-liðinn séu um 15 millj. virði þegar meðaltalið er tekið. Þetta er nú allur sparnaðurinn sem hæstv. ráðherra ætlar sér að fara í í málinu, um 15 millj. á ári. Ég lýsi því yfir úr þessum ræðustóli sem ég hef reyndar áður gert: Það er skammarlegt að hæstv. ráðherra skuli ætla sér að spara 15 millj. kr. á ári úr ríkissjóði með því að láta það bitna á því fólki sem á í hlut því að hvaða fólk á hagsmuna að gæta varðandi þau mál sem heyra undir b-liðinn? Við skulum skoða það aðeins nánar því það kom líka fram í umfjöllun nefndarinnar hvers konar mál falla undir þetta ákvæði.

Þetta eru m.a. mál sem ríkið sækir, fordæmismál, t.d. þegar ríkisskattstjóri tekur einn skattgreiðanda út úr hópi margra til að fá dómsniðurstöðu um tiltekið álitamál. Þ.e. ríkið höfðar mál gegn einstaklingi til að gefa fordæmi í málinu þannig að dómstólar dæmi í málum sem skattyfirvöld eru ekki viss um hvernig eigi að afgreiða, þá tekur ríkisskattstjóri af handahófi einstakling og lögsækir. Mál af þessu tagi hafa t.d. hlotið náð fyrir augum gjafsóknarnefndar og hafa heyrt undir b-liðinn.

Sömuleiðis má nefna mál þar sem aflahæfi fólks er skert og það þarf að fara í skaðabótamál við ríkið, skaðabótamál þar sem tekist er á um sök. Það var ekki verið að tala um venjuleg tryggingatjón heldur skaðabótamál þar sem tekist er á um sök og þar er líka um að ræða mál sem fyllilega eðlilegt er að viðkomandi fái gjafsóknir.

Svo má nefna lóðamál þar sem eru deilur um lóðarétt, sveitarstjórnarmál ýmiss konar, virkjanamál og almennt mál sem lúta að úrskurðum sem ráðherrar hafa gefið í álitamálum, þannig að ef einstaklingar hafa viljað fá hnekkt úrskurðum sem ráðherrar hafa fest, það sé einstaklingum í óhag, hafa þeir einstaklingar geta höfðað mál á grundvelli gjafsóknar til að skera úr um réttinn gagnvart ríkisvaldinu, gagnvart ráðherrunum sjálfum. Hæstv. dómsmálaráðherra er því með því að fella niður heimildina sem hefur verið til staðar í b-liðnum að fella út möguleika einstaklinga á því að lögsækja ráðherrana. Hann er með öðrum orðum að skjóta sér og sínum samráðherrum undan þeirri ábyrgð sem eðlilegt er að þeir sæti því auðvitað verða færri mál af því tagi sem koma til kasta dómstóla með því að fólk hættir að fá gjafsókn í slíkum málum.

Það má t.d. nefna mál sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið, dóm sem nýverið féll í héraðsdómi þar sem fyrrverandi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson stefndi m.a. umhverfisráðherra og reyndar fjármálaráðherra og fleiri aðilum vegna málsmeðferðar á stjórnsýslustigi þegar mat á umhverfisáhrifum álvers austur á Reyðarfirði fór í gegnum stjórnsýsluna. Þó svo það mál hafi reyndar verið komið langt áður en stefnandi í því máli fékk gjafsóknina samþykkta endaði það mál í gjafsókn. Það eru nákvæmlega mál af þessu tagi sem hæstv. ráðherra er að koma sér hjá vegna þess að hann er að forða ráðherrunum og sjálfum sér undan því að standa frammi fyrir dómurum og fá dóm á sig fyrir að brjóta á rétti einstaklinga í samfélaginu.

Þetta er forkastanlegt í þessu frumvarpi og þarna stendur ágreiningurinn. Ágreiningurinn er pólitískur og mjög málefnalegur og það er hæstv. ráðherra til minnkunar að hann skuli koma í andsvar við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson og halda því fram að rökstuðningur okkar stjórnarandstöðuþingmanna sé byggður á einhverjum barnaskap og einfeldni. Það er beinlínis rangt hjá ráðherranum og honum til minnkunar.

Umsagnir sem allsherjarnefnd hafa borist um málið styðja sjónarmið mitt að hér sé um pólitík að ræða, pólitíska stefnumótun, enda segir í umsögn réttarfarsnefndar sem gefur í sjálfu sér ekki umsögn um málið vegna þess að hún telur frumvarpið fela í sér almenna stefnumótun sem lúti að ráðstöfun á almannafé, af þeim sökum telur réttarfarsnefnd það utan verksviðs síns að taka afstöðu til efnis frumvarpsins. Sem sagt pólitísk stefnumótun. Það er því ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að hann geti vikið sér undan því að taka þennan slag sem er nauðsynlegt að taka og ég hvet hv. þingmenn stjórnarflokkanna til að hlýða á mál stjórnarandstöðunnar og taka málefnalega afstöðu til þess sem hér um ræðir. Rök hæstv. ráðherra eru ekki réttlætanleg að hér sé um sparnað að ræða og koma því þannig yfir á stjórnarandstöðuna að hún vilji bara auka útgjöld ríkissjóðs til hægri og vinstri því þetta eru prinsippmál sem hér um ræðir og það prinsipp sem falið hefur verið í b-lið 126. gr. hefur verið áratugum saman í lögum. Auðvitað hefur það ekki verið mikið notað en það hefur þó verið notað í mjög afdrifaríkum málum.

Ég átel hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann allsherjarnefndar, fyrir að halda því fram hér í ræðustól áðan þegar hann fylgdi úr hlaði meirihlutaáliti allsherjarnefndarinnar að með þessu frumvarpi sé ekki gert ráð fyrir fækkun gjafsóknarmála en það kunni að stemma stigu við frekari aukningu gjafsóknarmálanna. Á hvern hátt getur hv. þingmaður rökstutt þessa fullyrðingu sína? Hvernig getur það verið að í hæsta lagi 15 mál á þessu ári, af þessum málafjölda, geti tommað til þess að stemma stigu við aukningu þessara mála? Þetta er yfirklór og yfirvarp hjá hv. þingmönnum í meiri hluta allsherjarnefndar og ég tel að þetta sé einungis sett fram til þess að reyna að réttlæta vilja hæstv. ráðherra, hér séu bara þjónar ráðherrans að ná fram markmiðum og ætlunarverkum hans.

Það kemur líka fram á mjög skýran hátt í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands sem barst allsherjarnefnd og er dagsett 29. apríl 2004 að hún telur rökstuðning þessa máls vera afar veikan og málið allt standa á brauðfótum, sérstaklega kannski hvað varðar þennan b-lið. Sömuleiðis gagnrýnir laganefnd Lögmannafélags Íslands reglugerðarheimildina sem sett er inn í þetta frumvarp.

Ég má til með, hæstv. forseti, að fá að vitna í þessa umsögn laganefndarinnar þar sem kvartað er undan því að það skorti að gerð sé grein fyrir bæði markmiðunum og tilefninu sem þetta frumvarp byggir á. Í umsögninni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„ Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur að á það skorti verulega í frumvarpi því sem hér er til umsagnar að gerð sé grein fyrir markmiðum þeirra lagabreytinga sem þar eru lagðar til eða að getið sé tilefnis þeirra. Þær röksemdir sem færðar eru í frumvarpinu fyrir hinni ráðgerðu skerðingu gjafsóknarheimilda lúta að því að ákvæði í b-lið 1. mgr. 126. gr. sé afar víðtækt og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklings af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.

Að mati laganefndar fullnægir þetta ekki þeim kröfum sem gera verður til rökstuðnings og tilgreiningar tilefnis og markmiðs með ráðgerðum breytingum.“

Hér skortir sem sagt á að gerð sé grein fyrir markmiðum þessara lagabreytinga og tilefni þeirra. Það stendur ekki í greinargerðinni með frumvarpinu að þetta sé sparnaðaraðgerð. Það hefur einungis komið fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra. Við höfum líka hrakið það með rökum að hér sé um svo fátæklega sparnaðaraðgerð að ræða. Það stenst því ekki.

Þess vegna, eins og ég segi, ítreka ég það að hæstv. ráðherra verður að koma hér með haldbetri rök fyrir því að þetta skuli gert og svara á málefnalegan hátt þeim ávirðingum sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum komið með í þessum ræðum okkar.

Sömuleiðis má taka undir lokaorð í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands sem telur að með samþykkt þessa frumvarps sé stigið skref aftur á bak að því er varðar aðgang einstaklinga að dómstólum. Þetta er auðvitað lykilatriði í þessu máli öllu. Hér er verið að skerða rétt einstaklinga til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Laganefnd Lögmannafélags Íslands bætir við í niðurlagi umsagnar sinnar, með leyfi forseta:

„Auk þess skortir ítarlegan rökstuðning fyrir skerðingunni í athugasemdum með frumvarpinu en þar er ekki gerð grein fyrir helstu markmiðum breytinganna. Þá skortir algerlega á að í athugasemdum með frumvarpinu sé gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum um mál sem veitt hefur verið gjafsókn í á grundvelli umræddra lagaákvæða og hver sé kostnaður við þau sé það markmið breytinganna að lækka kostnað við gjafsóknarleiðir.“

Undir þessi orð laganefndar Lögmannafélagsins skal tekið hér og því vísað til föðurhúsanna að hér sé um einhvern barnaskap að ræða eða að það sé barnalegt að krefja hæstv. ráðherra um að hann komi hér og rökstyðji mál sitt betur en hann hefur gert hingað til.

Varðandi síðan reglugerðarákvæðið sem sett er fram í frumvarpinu má auðvitað fagna því að drög að reglugerðinni skuli hafa verið lögð fram í nefndinni. Það eru vinnubrögð sem ég get tekið undir að séu af hinu góða og til sóma. Það var gott að fá að sjá þannig yfir öxlina á hæstv. ráðherra hvað hann er að hugsa varðandi þetta reglugerðarákvæði.

Á hinn bóginn má segja að þessi reglugerðarheimild sé ámælisverð að hluta til vegna þess að það er almennt ekki æskilegt eða taldir góðir lagasetningarhættir að veita reglugerðarheimildir í stað þess að setja skýr efnisákvæði í lög. Sérstaklega á þetta við þegar um ágreiningsmál er að ræða, eins og í þessu tilfelli. Þá er það ekki forsvaranlegt að hæstv. ráðherra skuli ákveða að leysa ágreiningsmálin að hluta til með reglugerðarheimild og að þingmenn stjórnarflokkanna skuli bara gleypa þetta hrátt. Löglærðir þingmenn í allsherjarnefnd eiga auðvitað að vita hvað eru góðir lagasetningarhættir. Þeir hafa lært í fræðum sínum að ekki sé til eftirbreytni að setja reglugerðarheimildir á þessum nótum inn í lög, það sé betra og skýrara og réttara að úttala sig um það hvað lögin meina í lagatextanum.

Undir hvað eru hv. þingmenn stjórnarflokkanna að beygja sig hér? Undir hvað eru stjórnarliðar að beygja sig í þessu máli? Undir pólitískan vilja og leiðsögn hæstv. dómsmálaráðherra — það er mitt svar. Ég tel afar mikilvægt að stjórnarliðar skoði þetta mál gagnrýnum augum og taki ekki bara hrátt það sem hæstv. ráðherra hefur sagt hér í ræðum sínum. Þetta er engin sparnaðaraðgerð, það er verið að brjóta rétt á einstaklingum í samfélaginu okkar og, eins og ég hef sagt, rétt á fólki sem hefur ákveðið að reyna að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Það er rétt í þessu tilfelli, hæstv. forseti, að benda á athyglisverða grein sem birtist í tímaritinu Úlfljóti árið 1994 þar sem Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, sem þá sat í gjafsóknarnefnd og hafði setið um nokkurt skeið, gerir ágætlega grein fyrir ákvæðinu sem ætlunin er að fella út úr lögum með þessu frumvarpi. Atli segir í greininni sinni að sú heimild sem fólgin er í b-liðnum hljóti að verða að teljast veigamikil réttarbót þannig að á þeim tíma, þegar þetta er upphaflega sett inn í lögin, 1992, er þetta talin vera veruleg réttarbót fyrir einstaklinga. Þess vegna er eðlilegt að við spyrjum: Hvað vakir fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að taka þessa réttarbót nú af fólki? Er ekki lengur þörf á því að hafa hana til staðar? Ég segi jú, við þingmenn stjórnarandstöðunnar segjum jú. Það er full þörf á því að þessari réttarbót sé haldið í lögum og það er fullkomin ósvinna að taka hana út án nokkurra raka annarra en þeirra sem hæstv. ráðherra hefur reynt af veikum mætti að gefa, þ.e. að það þurfi að spara 15 millj. á ári fyrir ríkissjóð.

Að lokum, hæstv. forseti, langar mig til að fara nokkrum orðum um þessa grein hæstaréttarlögmannsins Atla Gíslasonar sem birtist í Úlfljóti. Hann fjallar um það hvers konar mál það eru sem heyra undir b-liðinn. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„ Tíðast er að gjafsóknarnefnd vísi til b-liðar 126. gr. þegar um er að ræða skaðabótamál til heimtu bóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil. Í slíkum tilvikum er ljóst að aflahæfi er skert þannig að það varðar framtíðarafkomu umsækjanda og fjölskyldu hans mjög verulega. Enn fremur hefur gjafsókn verið veitt þegar mál varðar bætur fyrir missi framfæranda, lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur hefðbundin mannréttindi. Gjafsókn hefur meðal annars verið veitt í málum vegna ófrjósemisaðgerðar og vönunar þar sem vafi lék á um heimild til aðgerðanna. Einnig má í dæmaskyni nefna mál vegna þinglýsingarmistaka þar sem afstaða ríkisins leiddi til þess að einstaklingar, sem hlut áttu að máli, urðu að höfða mál til að fá skorið úr hvort tjónið lenti á þeim eða bankastofnun, áður en unnt var að höfða mál gegn ríkinu.“

Síðar í greininni segir áfram, með leyfi forseta:

„Við mat á því hvort skilyrðum b-liðar 126. gr. sé fullnægt ber að hafa í huga að hún felur í sér frávik frá upphaflegum tilgangi gjafsóknarheimilda. Höfuðmarkmið gjafsóknar er að gera hinum efnaminni kleift að gæta réttar síns fyrir dómi. Öðrum verður ekki veitt hagræði gjafsóknar nema í undantekningartilvikum.“

Það eru sem sé undantekningartilvikin sem hér á að skera út. Hin þrönga túlkun sem gjafsóknarnefnd hefur notað á þessa þýðingarmiklu heimild kemur auðvitað í veg fyrir nokkra misnotkun á þessu ákvæði.

Ég sé því ekki betur en að réttarbótin sem leidd var í lög á sínum tíma sé hér á gerræðislegan hátt strikuð út úr lögunum og, hæstv. forseti, ég mótmæli því sem skerðingu á mannréttindum þegnanna í þessu landi.