132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[16:03]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála síðasta hv. ræðumanni um að við séum litlu eða engu nær eftir þessa umræðu. Ég tel þvert á móti að umræðan sýni í rauninni að hér sé að verða ákveðin viðhorfsbreyting, bæði hér á Alþingi en líka í þjóðfélaginu. Við getum líka kallað þetta vitundarvakningu.

Við höfum nefnilega komist á þann punkt núna í umræðunni að við erum farin að spyrja grundvallarspurninga. Við erum ekki að rífast um sjálft kvótakerfið heldur erum við að spyrja grundvallarspurningar um nýtinguna á fiskimiðunum, hvernig aðferðafræði við beitum við nýtinguna á fiskimiðunum. Ég hef margoft bent á að við hljótum að vera þar á villigötum því það er ekki einleikið, virðulegi forseti, hversu erfiðlega okkur hefur gengið að byggja upp bolfiskstofna hér við land. Það er ekki einleikið að skoða ástandið eins og það er í dag og bera það síðan saman við það sem var fyrir um 50 árum þegar hér var frjáls sókn og Íslandsmið, þessi stórkostlega gullkista gat gefið af sér fleiri hundruð þúsund tonn af þorski á hverju ári, nánast jafnstöðuafla í frjálsri sókn.

Það er umhugsunarefni hvernig á því stóð að miðin gátu borið uppi þessa miklu sókn áratugum saman án þess að þar yrði fall í veiðum. Ég tel að stór hluti af skýringunni sé einmitt falinn í þessu. Á hverju ári flæddi þessi mikla orka og þessi mikla næring yfir fiskimiðin og var þar eftir sem æti fyrir fiskana. Það skipti ekki höfuðmáli hvort þorskurinn hefði beint aðgengi að loðnumiðunum meðan hún var að synda yfir grunnslóðina nokkrar vikur eftir áramót á hverju ári. Það sem skipti höfuðmáli var að þessi næring kom inn á grunnslóðina og hún var þar grundvöllur fyrir öllu vistkerfinu, hún varð til þess að næringarskilyrði sköpuðust fyrir það sem gaf okkur síðan þessa miklu gullkistu, Íslandsmið, og vonandi, virðulegi forseti, munum við aftur komast á það stig að geta upplifað þá tíma.