137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar ég gekk í sæti mitt eftir síðustu atkvæðaskýringu kallaði hæstv. heilbrigðisráðherra til mín og sagði að ég ætti ekki að tala hagsmuni Íslendinga niður. (Heilbrrh.: Þú átt ekki að gera það.) Síðan sagði hann í kjölfarið: „Þetta á að halda.“ Á að halda? Eigum við ekki að vera algjörlega viss um að þetta haldi? Eigum við, þó að ekki sé nema pínulítill vafi, eigum við þá ekki að gera það öruggt að það haldi? (Heilbrrh.: Hver er þín …?) Eigum við ekki einfaldlega að hafa það öruggt? Af hverju setja menn fyrirvara um eitthvað sem á að vera öruggt? Af hverju gera menn það ef raunverulegur vilji er til þess að ríkisábyrgðin falli niður 5. júní 2024? (Heilbrrh.: Vegna þess að við treystum Alþingi Íslendinga þegar þar að kemur.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að vera ekki með samtöl í sal.)