148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Guðjóni Brjánssyni, frumkvæðið að þessari umræðu og ráðherra fyrir sitt innlegg. Kjarasamningur við ljósmæður rann út í febrúar og hafa þær verið án samnings síðan. Ljósmæður hafa ekki verið hávær stétt þegar kemur að kjörum þeirra og nú er svo komið að þær stíga fram til að árétta þann mismun sem er á þeim og sambærilegum stéttum innan heilbrigðiskerfisins. Ég vil ekki trúa að það sé vegna þess að þetta sé hrein kvennastétt — eða þarf ég þess?

Á næstu tveimur árum renna fjölmargir kjarasamningar út. Fram á árið 2019 eru þeir hátt á annað hundrað. Það kallar á að við vöndum okkur í upphafi þeirrar vinnu sem fram undan er í samningaviðræðunum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi. Sátt á vinnumarkaði er nauðsynleg forsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi og skapa þannig efnahagsleg skilyrði til lægra vaxtastigs og bættra lífskjara.“

Virðulegi forseti. Það skiptir því miklu máli hvaða lendingu við náum í samningaviðræðum við ljósmæður og markmiðið er að allir gangi sáttir frá borði. Þessar samningaviðræður geta slegið tóninn fyrir komandi kjarasamningaviðræður.

Ljósmæður eru gríðarlega mikilvæg stétt innan heilbrigðisgeirans. Má nærri segja að hún leggi grunn að heilbrigði hverrar manneskju sem er að feta sig út í lífið. Við getum ekki horft á eftir menntuðum og reyndum ljósmæðrum í önnur og betur launuð störf; störf sem jafnvel krefjast bara fimmtungs menntunar ljósmæðra en eru samt miklu betur borguð.

Því skiptir máli að ganga með virðingu að samningaborði ljósmæðra og leysa þann hnút sem fyrst sem málið virðist vera komið í.